Enski boltinn

Downing: Rodgers sagði að ég mætti fara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Stewart Downing hefur verið fastamaður í liði Liverpool undanfarnar vikur en litlu mátti muna að hann hefði farið frá félaginu.

Downing hefur átt erfitt uppdráttar síðan hann gekk til liðs við Liverpool sumarið 2011 en hefur verið meðal bestu leikmanna liðsins að undanförnu. Hann hefur verið í byrjunarliðinu undanfarna tíu leiki.

„Stjórinn sagði mér að ég væri á þeim aldri að ég þyrfti að spila og spurði mig hvort ég vildi finna mér nýtt félag," sagði hinn 28 ára gamli Downing við enska fjölmiðla.

„Ég var ekki alveg sammála honum en skildi afstöðu hans, enda var ég lítið sem ekkert að spila þá. Hann þarf leikmenn sem nýtast honum og því vildi ég fá tækifæri til að sanna mig fyrir honum."

„Sem betur fékk ég tækifæri til þess viku síðar. Síðan þá höfum við átt mjög opinská samtöl - hann hrósar mér ef vel gengur og við ræðum einnig saman um það sem betur má fara."

„Þannig er það hjá öllum leikmönnum. Þetta er fyrirkomulag sem hentar mér vel."

„Nú gengur mér vel og hann er ánægður með mig. Vonandi heldur það áfram á þeirri braut. Ég á nokkur ár eftir af samningi mínum og það eina sem ég get gert til að halda sæti mínu í liðinu er að spila vel."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×