Enski boltinn

City í viðræður við Juventus og AC Milan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Juventus hefur bæst í hóp liða sem hafa hug á að kaupa sóknarmanninn Mario Balotelli frá Manchester City, ef marka má fréttir enskra miðla.

Balotelli hefur verið sterklega orðaður við AC Milan síðustu daga en Manchester City er sagt hafa átt í viðræðum við bæði Milan og Juventus síðustu daga.

City vill fá 24 milljónir evra, rúma fjóra milljarða króna, fyrir kappann og er ekki sagt reiðubúið að lækka sig í verði. Balotelli er samkvæmt eigendum City ekki formlega til sölu.

Enskir fjölmiðlar sögðu margir frá því að Balotelli hefði haldið kveðjuhóf fyrir vini sína í Manchester á sunnudagskvöldið og að hann hafi kvatt liðsfélaga sína á æfingu liðsins í gærmorgun.

Engu að síður er nú fullyrt að Balotelli sé í leikmannahópi City fyrir leikinn gegn QPR í kvöld. David Platt, aðstoðarstjóri City, sagði nýlega að Balotelli yrði áfram í Manchester.

„Ég held að það muni ekkert gerast. Hvað okkur varðar er hann enn leikmaður Manchester City," sagði Platt. Balotelli hefur skorað eitt deildarmark á tímabilinu og hefur ítrekað komist í fréttir fyrir hegðun sína innan vallar sem utan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×