Enski boltinn

Hart barist um þjónustu Wilfried Zaha

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Zaha
Zaha Nordicphotos/Getty
Talið er að Arsenal, Chelsea, Manchester United og Tottenham séu á meðal félaga sem munu berjast um þjónustu Wilfried Zaha, leikmanns Crystal Palace, í félagaskiptaglugganum sem nú hefur verið opnaður.

Ekkert formlegt tilboð hefur borist í kantmanninn tvítuga sem talinn er vera falur fyrir um tíu milljónir punda eða sem nemur um tveimur milljörðum íslenskra króna.

Zaha hefur farið á kostum í Championship-deildinni í vetur. Þrátt fyrir að Palace vilji ekki selja hann telja heimildir Guardian að félagið sé búið að játa sig sigrað. Það telji sig ekki geta haldið honum auk þess sem Zaha hefur lýst yfir vilja til þess að ganga í raðir félags í ensku úrvalsdeildinni.

Zaha, sem á ættir sínar að rekja til Fílabeinsstrandarinnar, vakti mikla athygli í 2-1 sigri Palace á Manchester United í deildabikarnum árið 2011. Þá fór hann illa með Fabio Da Silva og átti þátt í sigurmarki Palace. Hann spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir England í 4-2 tapinu gegn Svíum í nóvember.

Zaha er ekki eini leikmaður Palace sem er eftirsóttur í félagaskiptaglugganum. Framherjinn Glenn Murray, markahæsti leikmaður Championship-deildarinnar, er undir smásjá Norwich sem er talið tilbúið að greiða þrjár milljónir punda fyrir hann. Murray hefur skorað 22 mörk í deildinni og talið líklegt að Crystal Palace reyni að bjóða honum langtíma samning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×