Enski boltinn

Mancini: Van Persie var hársbreidd frá því að semja við City

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að City hafi verið afar nærri því að ganga frá kaupum á Robin van Persie sem á endanum samdi við Manchester United. Kaupverðið var 24 milljónir punda eða tæpir fimm milljarðar íslenskra króna.

„Við vildum fá Van Persie því við vissum hve mikilvægur hann gæti reynst," sagði Mancini á blaðamannafundi í gær.

„Hann er allt öðruvísi leikmaður en hinir framherjar okkar. Við vildum nota hann í Meistaradeildinni og ensku úrvalsdeildinni," segir Mancini.

Van Persie skoraði 37 mörk á síðustu leiktíð með Arsenal. Hann var í kjölfarið orðaður við brottför frá félaginu og Manchester-liðin voru efst á blaði.

„Við vorum hársbreidd frá því að semja við hann. Við vorum vissir um að hann kæmi til okkar en svo gekk það ekki upp. Það er ekkert hægt að gera í því úr þessu. Við vorum mjög nálægt því þremur til fjórum mánuðum áður en hann samdi við United," segir Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×