Enski boltinn

Mancini: Skoruðum þrjú mörk gegn bestu vörninni

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Nordicphotos/Getty
„Við lékum mjög vel í dag. Við skoruðum þrjú mörk gegn bestu vörninni í úrvalsdeildinni,“ sagði Roberto Mancini knattspyrnustjóri Manchester City eftir 3-0 sigurinn á Stoke á heimavelli í dag.

„Það er mikilvægt að nýta færin vel því við munum að við urðum meistarar á markamun í fyrra. Það var erfitt í dag því Stoke varðist vel.

„Við fengum þrjú eða fjögur færi á fyrstu 43 mínútunum en eftir að við skoruðum fyrsta markið varð allt auðveldara.

„Það er mikilvægt að halda hreinu. Við getum ekki alltaf skorað en nú þegar við erum byrjaðir að skora þá er mikilvægt að halda hreinu.

„Við missum þrjá mikilvæga leikmenn í Afríkukeppnina en við sjáum til með hvort við reynum að kaupa einhverja leikmenn í janúar,“ sagði Mancini að lokum.

Tony Pulis stjóri Stoke City vildi ekki gagnrýna leikmenn sína eftir tapið í dag.

„Ég get ekki kvartað. Þeir voru betra lið. Einhver spurði mig hver munurinn á liðunum væri og ég sagði að hann væri um 220 milljónir punda,“ sagði Tony Pulis.

„Til að fá eitthvað hér þyrftum við að leika okkar besta leik og City að leika illa og það gerðist ekki í dag. Maður verður stundum að líta raunsætt á hlutina og þeir eru með ákveðna forgjöf á lið eins og okkar,“ sagði Pulis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×