Enski boltinn

Lampard: Chelsea getur orðið enskur meistari í vor

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard.
Frank Lampard. Mynd/Nordic Photos/Getty
Frank Lampard skoraði bæði mörk Chelsea í 2-1 sigri á Everton á Goodison Park í síðasta leik Chelsea á árinu og hann verður væntanlega í stórtu hlutverki í kvöld þegar Chelsea mætir Queens Park Rangers í fyrsta leik sínum á árinu 2013.

Chelsea er fjórtán stigum á eftir toppliði Manchester United en enski landsliðsmiðjumaðurinn er ekki búinn að gefa upp vonina um að vinna enska titilinn.

„Við megum ekki missa trúna. Það er mikið eftir af tímabilinu og hlutirnir geta breyst hratt. Við vinnum aðeins meistaratitilinn með því að vinna okkar leiki. Ef við höldum áfram að spila eins og í síðustu leikjum þá getum við það," sagði Frank Lampard við AFP.

Lampard er orðinn 34 ára gamall en framtíð hans hjá félaginu hefur verið í uppnámi enda rennur núverandi samningur hans út í sumar.

Mikilvægi hans sést vel á gengi Chelsea-liðsins með hann innanborðs en Chelsea hefur fengið 31 af 33 mögulegum stigum út úr þeim 11 leikjum sem Lampard hefur komið við sögu. Lampard sjálfur er með 6 mörk í þessum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×