Enski boltinn

Ætla sér að taka stigametið af Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney og Robin van Persie.
Wayne Rooney og Robin van Persie. Mynd/Nordic Photos/Getty
Wayne Rooney og Robin van Persie framherjar Manchester United ætla ekki að slaka neitt á þótt að félagið sé nánast búið að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn og sé úr leik í öllum öðrum keppnum. Stigamet Chelsea getur enn fallið og United-liðið hefur sett stefnuna á það.

Manchester United vann 2-0 sigur á Stoke City um helgina og þarf nú sjö stig úr síðustu sex leikjum sínum til þess að gulltryggja endanlega meistaratitilinn. Liðið þarf hinsvegar sextán stig til þess að bæta stigamet Chelsea frá 2004-05.

„Við erum í frábærri stöðu. Stjórinn talaði um það fyrir Stoke-leikinn að nýtt tímabil væri að byrja og við eigum sex leiki eftir. Við ætlum að vinna þá alla og ef það tekst þá náum við metinu sem er flott markmið fyrir okkur. Það væri gott að ná þessu meti," sagði Rooney.

„Við viljum ekki bara ná í þau stig sem duga til að vinna titilinn. Við viljum ná í öll stigin sem eru í pottinum. Það er mikilvægt að halda áfram á sigurbraut og við höfum sett stefnuna á það," sagði Robin van Persie.

Robin van Persie hefur skorað 20 deildarmörk á tímabilinu en Wayne Rooney er með 12 mörk. Engin framherja-tvenna í ensku úrvalsdeildinni hefur skorað fleiri mörk saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×