Enski boltinn

Wilshere: United má alls ekki tryggja sér titilinn á Emirates

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Wilshere og Robin van Persie í hópi liðsfélaga sinna í Arsenal á meðan Hollendingurinn spilaði með félaginu.
Jack Wilshere og Robin van Persie í hópi liðsfélaga sinna í Arsenal á meðan Hollendingurinn spilaði með félaginu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Robin van Persie, fyrrum leikmaður Manchester United, getur tryggt sér enska meistaratitilinn ásamt félögum sínum í United-liðinu þegar Manchester United heimsækir hans gömlu félaga Arsenal á

Emirates-leikvanginn 28. apríl næstkomandi. Jack Wilshere vill alls ekki sjá það gerast.

Arsenal-liðið er á góðu skriði og í góðum málum í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni. Liðið mætir Everton á Emirates í kvöld. Wilshere hefur sett stefnuna á sex sigra í síðustu sex leikjunum.

„Við mætum Everton í kvöld sem er mjög mikilvægur leikur. Ef við vinnum hann þá erum við í góðum málum en við eigum samt enn langt í land. Það eru erfiðir leikir framundan. Við spilum við Fulham á útivelli á laugardaginn og síðan fáum við Manchester United í heimsókn. Augljóslega viljum við ekki að þeir tryggi sér titilinn á Emirates-leikvanginn og við mætum því tilbúnir í þann leik," sagði Jack Wilshere í viðtali við Daily Mirror.

„Ég tel að við getum fengið 18 stig af 18 mögulegum í þessum sex síðustu leikjum. Við unnum United hér á síðasta tímabili og vitum að við getum unnið þá. Ef við töpum stigum þá gerist það bara en við verðum bara að koma þá sterkir til baka og einbeita okkur að einum leik í einu," sagði Wilshere.

„Það er frábært að vera í þriðja sæti ekki síst miðað við þá stöðu sem við vorum í. Við höfum sýnt mikinn karakter. Við viljum samt standa okkur betur og eigum ekki að sætta okkur við þriðja sætið. Við höfum marga frábæra leikmenn og viljum vera að berjast um efstu tvö sætin," sagði Wilshere.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×