Enski boltinn

Aron, Heiðar og félagar gætu búið til 5000 ný störf í Cardiff

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heiðar Helguson.
Heiðar Helguson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Cardiff City getur í kvöld tryggt sér sæti í ensku úrvalsdeildinni en liðið þarf aðeins að ná í eitt stig út úr leik sínum á móti Charlton Athletic til þess að komast í hóp bestu liða Englands í fyrsta sinn í 53 ár.

Viðskiptafræðingurinn Tom Cannon fer yfir það í viðtali á fréttavefnum Walesonline hversu miklu það skilar til Cardiff-borgar takist Cardiff City að verða úrvalsdeildarlið. Hann segir að á einu ári gæti vera félagsins í ensku úrvalsdeildinni búið til fimm þúsund ný störf í borginni og skilað allt að 120 milljónum punda inn í hagkerfið.

Félög eins og Swansea City, Blackpool og Hull City, sem hafa unnið sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á síðustu árum, hafa öll kynnst því hversu miklu það skilar að komast upp í ensku úrvalsdeildina. Þessi þrjú félög sköpuðu öll á bilinu 30 til 50 milljónir punda með því að komast upp en Cannon telur að Cardiff eigi von á miklu meiru pening.

Cardiff græðir að hans mati á því að vera eina liðið frá höfuðborginni í Wales sem og að í Cardiff sé alþjóðlegur flugvöllur. Það tvennt hjálpar Cardiff að skapa tvöfalt meiri pening fyrir hagkerfið en þegar Swansea City fór upp í fyrra. Cardiff mun líka njóta góðs af nýjum sjónvarpssamningi en hann er 70 prósent hærri en sá gamli.

Aron Einar Gunnarsson og Heiðar Helguson eru báðir í stórum hlutverkum hjá Cardiff City en þeir eru markahæstu leikmenn liðsins ásamt Peter Whittingham. Allir hafa þessir þrír skorað átta mörk á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×