Lífið

Æskujólin kærust

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Guðríður Jónsdóttir er 103 ára. Hún hlakkar mikið til jólanna eins og á bernskuárunum að Núpum. Þá var hangikjötið mesta tilhlökkunarefnið en nú eru það samfundir við afkomendurna.
Guðríður Jónsdóttir er 103 ára. Hún hlakkar mikið til jólanna eins og á bernskuárunum að Núpum. Þá var hangikjötið mesta tilhlökkunarefnið en nú eru það samfundir við afkomendurna. mynd/gva
Guðríður Jónsdóttir frá Núpum í Ölfusi upplifir nú sín 103. jól. Þrátt fyrir að vera orðin blind segist hún hlakka mest til að sjá fólkið sitt.

„Hún er sterk minningin um æskujólin að Núpum og ég get aldrei gleymt því þegar mamma stóð upp eftir húslestur úr Pétursbók á aðfangadagskvöld því þá vissi ég hvað hún ætlaði að gera; að skammta okkur hangikjöt á diskana,“ segir Guðríður og úr augum hennar skín barnsleg gleði við minninguna.

„Við mamma vorum miklir mátar þótt hún hefði lítinn tíma til að tala við mig. Hún hafði svo mikið að gera við matseld, prjónaskap og þvotta og mátti ekki til þess hugsa að fólkið hennar væri svangt.“

Guðríður fæddist 21. september árið 1910 að Núpum í Ölfusi og er því 103 ára.

„Ég varð langelst af mínum systkinum en systir mín varð 95 ára. Langlífið er ættgengt og pabbi var á 102. árinu þegar hann kvaddi. Þá náðu fáir svo háum aldri á Íslandi og pabbi, sem var mikill söngmaður, söng sálminn Víst ertu Jesú kóngur klár í útvarpinu af því tilefni,“ segir Guðríður brosmild.

Á jólaföstunni að Núpum var mikið að gera og allir hlökkuðu einlægt til jólanna.

„Fyrir okkur börnin var mest spennandi hversu margir jólasveinar og jólameyjar kæmu að Núpum en það voru karlar og dömur kölluð sem komu heim að bæ á jólaföstunni. Í skammdeginu var svo haldið harmóníkuball og dansað til klukkan átta að morgni þegar farið var beint í fjósið. Dansmúsíkin dunaði í eyrum mínum alla leiðina heim og daginn eftir; svo skemmtilegt leikfang var dansinn.“

Guðríður segir jólin alltaf hafa liðið yndislega og mest um vert hafi verið að hafa alla heilbrigða og hjá sér.

„Móðir mín, Guðrún Símonardóttir frá Bjarnastöðum, reykti hangikjötið á hlóðum fyrir heimilið og tvo aðra bæi. Það var mikil vinna og þurfti að margsnúa hangikjötslærunum yfir opinni eldstó,“ segir Guðrún sem lifði það ekki að búa í torfbæ en á bænum var þó hlóðaeldhús.

„Í baðstofunni sátum við á kvöldin við að spinna og kemba ull sem pabbi tvinnaði í hnykla og mamma prjónaði úr sokka á karlmennina. Hestar, kýr og kindur voru í húsi allan veturinn og að hugsa um dýrin gekk fyrir. Blessaðar skepnurnar þekktu mann allar og ég saknaði þeirra mikið þegar ég fór frá þeim,“ segir Guðríður.

Á æskujólum Guðríðar á Núpum var allt hreint og fínt þegar jólin gengu í garð.

„Allt var skúrað og þvegið og fallegir olíulampar og kerti lýstu upp heimilið fyrir tíma rafmagnsins. Við börnin vorum þvegin í bala en jólabaðið var lítið verk á móti því sem nú er,“ segir Guðríður og hlær dátt.

„Jólagjafir voru fágætar en þegar eldri bróðir minn flutti til Reykjavíkur og gerðist tollvörður sendi hann okkur systkinum sínum kerti og spil sem við vorum afskaplega ánægð að fá. Þá gátum við spilað saman Marías og annað hvort okkar unnið. Á jóladag fengum við jólaköku sem húsfreyjan á næsta bæ færði okkur úr ofni sínum og það var eina sætabrauð jólanna. Í þessa tíð voru jólin kærkomin því svo lítið var hægt að gera sér til tilbreytingar en enginn kvartaði. Nú heyrast svo margir kvarta,“ segir Guðríður hugsi.

Guðríður hefur alltaf verið heilsuhraust. Hún fékk gláku sem uppgötvaðist of seint fyrir um tuttugu árum og hefur verið blind síðan.

„Ég sakna þess að sjá ekki jólaljósin og fólkið mitt. Það er slæmt að missa sjónina en svo má illu venjast að gott þyki. Ég hef það gott og gæti ekki átt betra heimili en hér á Hrafnistu. Ég hlakka mest til að sjá skyldfólk mitt um jólin. Afkomendurnir eru orðnir margir og börnin koma stundum til mín með foreldrum sínum, sérstaklega tvíburastrákar um fermingu sem strjúka mér mikið og klappa. Það er gott að finna hlýju þeirra og kærleikurinn er besta gjöfin.“

Guðríði er minnisstætt þegar hún fékk slæma hálsbólgu sem barn um jólaleytið á Núpum.

„Þá þurfti ég með hraði í kirtlatöku til Reykjavíkur og sat á vagni því engir bílar voru á þeim árum. Ferðin tók alls tólf tíma, sem nú tekur um tuttugu mínútur. Það er óhætt að segja að mikill mismunur sé á lífinu þá og nú, þegar rafmagn var ekki komið og þurfti að sækja allt vatn í læki.“

Guðríður var um tvítugt þegar hún flutti til Reykjavíkur. Þar kynntist hún manni sínum Sæmundi Þórðarsyni sem hafði alist upp hjá skyldfólki hennar eftir að hann missti móður sína á fyrsta ári. Þau hjónin bjuggu lengst af á Baldursgötu í Reykjavík og áttu saman þrjú börn sem öll lifa enn, en Sæmundur er látinn.

„Nú upplifi ég heilög jól í 103. sinn. Á árinu hef ég aðeins misst minnið en er þó ekki orðin rugluð. Mér finnst ekki sniðugt að eldast svona mikið og enginn veit fyrir víst hvort líf sé eftir dauðann. Stundum finnst mér dauðinn vera nálægur og hugsa að ég fari eins og pabbi sem dó í svefni og tók síðasta andvarpið þegar ég kom til hans að morgni. Ég er þó lífsglöð og finnst gaman að vera orðin 103 ára. Það er einhver tilgangur með því.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.