Fótbolti

Watford komst í úrslitaleikinn eftir magnaðan sigur á Leicester

Stefán Árni Pálsson skrifar
Leikmenn Watford fagna hér marki í dag.
Leikmenn Watford fagna hér marki í dag. Mynd. / Getty Images
Watford komst í dag í úrslitaleikinn um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir ótrúlegan sigur, 3-1, á Leicester.

Þetta var síðari leikur liðanna en Leicester vann fyrri leikinn 1-0. Matej Vydra, leikmaður  Watford, kom heimamönnum yfir eftir stundarfjórðung. David Nugent jafnaði síðan metin nokkrum mínútum síðar. Staðan var því 1-1 í hálfleik.

Matej Vydra skoraði síðan annað mark sitt í leiknum þegar um tuttugu og fimm mínútur voru eftir af leiknum. Það leit allt út fyrir að framlengja þyrfti leikinn. Leicester fékk dæmda vítaspyrnu á 97. mínútu leiksins en Almunia varði spyrnuna frá Anthony Knockaert og einnig frákastið, mögnuð frammistaða hjá fyrrum markverði Arsenal.

Watford brunar því næst í sókn og tryggir sér sigurinn á ótrúlegan hátt þegar Troy Deeney skoraði þriðja mark Watford og tryggði liðinu sæti í úrslitaleikinn um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni. Leikurinn fer fram á Wembley.

Magnaður sigur og allt varð vitlaust á Vicarage Road-vellinum í Watford.

Gianfranco Zola, knattspyrnustjóri Watford, hefur gert frábæra hluti með liðið og gæti verið á leiðinni með lið sitt í deild þeirra bestu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×