Fótbolti

Dómari í Afríkukeppninni settur í bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Búrkína Fasó voru ekki sáttir við Túnisann Slim Jdidi.
Leikmenn Búrkína Fasó voru ekki sáttir við Túnisann Slim Jdidi. Mynd/AFP
Túnisinn Slim Jdidi hefur verið settur í bann hjá afríska knattspyrnusambandinu eftir frammistöðu sína í undanúrslitaleik Búrkína Fasó og Gana í gær. Jdidi er 43 ára gamall dómari sem hefur verið með FIFA-réttindi í fimm ár og er meðal annars á lista yfir þá dómara sem koma til greina fyrir HM í Brasilíu á næsta ári.

„Dómarar fá frammistöðumat eftir hvern leik og miðað við þá einkunn sem Slim Jdidi fékk fyrir þennan leik þá verður hann settur í bann í óákveðinn tíma," sagði Hicham El Amrani framkvæmdastjóri afríska knattspyrnusambandsins.

Paul Put, þjálfari Búrkína Fasó, talaði um að Slim Jdidi hafi verið stjarna undanúrslitaleiksins en þrátt fyrir að margir dómar hafi fallið gegn liði Búrkína Fasó þá tókst liðinu engu að síður að komast í úrslitaleikinn í fyrsta sinn eftir 3-2 sigur í vítakeppni.

Slim Jdidi sleppti því meðal annars að dæma augljósa vítaspyrnu á fimmtu mínútu leiksins, dæmdi af mark hjá Búrkína Fasó í framlengingunni áður en hann rak Jonathan Petroipa útaf með sitt annað gult spjald. Petroipa fékk seinna spjaldið fyrir leikaraskap en Búrkína Fasó liðið mun sakna hans mikið í úrslitaleiknum á móti Nígeríu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×