Innlent

Olnbogabarn á Hljómalindarreitnum

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Kaffihúsið Hemmi og Valdi hefur verið starfrækt í gamla Hljómalindarhúsinu við Laugaveg 21 í sex ár.
Kaffihúsið Hemmi og Valdi hefur verið starfrækt í gamla Hljómalindarhúsinu við Laugaveg 21 í sex ár. Fréttablaðið/GVA

Ekki eru allir á eitt sáttir um fyrirhugaðar framkvæmdir við Hljómalindarreit í miðborg Reykjavíkur. Rætt hefur verið um að reisa þar hús undir atvinnurekstur, hótel og íbúðahúsnæði, svo eitthvað sé nefnt.

Þá ríkir óánægja meðal rekstraraðila á reitnum sem sumir hverjir kvarta undan samskiptaleysi á milli eigenda og þeirra sem starfrækja rekstur við reitinn.

Fasteignafélagið Reginn sá um söluna á eignunum fyrir hönd Landsbankans, og stofnaði til þess dótturfélagið Laugavegsreitir ehf. Svo fór fasteignafélagið Reginn á markað, og þannig var annað dótturfélag Landsbankans, Hömlur, látið selja eignina. Reginn var þó með söluna í umsýslu.

Nýir eigendur reitsins eru Þingvangur, en þar fer fremstur í flokki Pálmar Harðarson. Hann vildi ekkert láta hafa eftir sér þegar fréttastofa 365 falaðist eftir viðbrögðum. Þannig er ljóst að boðleiðirnar eru ansi margar.

„Nýir eigendur hafa bæði boðið mér að kaupa húsið að Laugavegi 21, sem ég vildi og bauð í í október í fyrra, og svo dregið það tilbaka - boðist til að framlengja leigusamninginn, sem hefur enn ekki orðið - og boðið mér að kaupa húsnæðið við Laugaveg 23, en hættu líka við það. Það er erfitt að vera með lítinn rekstur í svona umhverfi,“ sagði Villý Þór Ólafsson, eigandi kaffihússins Hemma og Valda.

Leigusamningur Hemma og Valda rann út þann 1. apríl síðastliðinn.

„Ég hef reynt margoft að ná í nýja eigendur til þess að finna út úr þessu en þeir hafa aldrei viljað hitta okkur. Þess í stað höfum við bara fengið óljós svör frá ósýnilegum mönnum í gegnum tölvupóst. Svo var það í lok maí sem ég fékk tölvupóst frá Landsbankanum um að ég skyldi rýma strax,“ sagði Villý jafnframt.

„Þetta er búið að vera rosalega erfitt í allan vetur. Við erum með fólk í vinnu og þetta eru engar aðstæður til þess að starfa í, að lifa í von og ótta með það hvort menn séu á vöktum út vikuna eða ekki,“ bætti Villý við. 

Húsið sem Hemmi og Valdi er starfrækt í er friðað. „Þetta er hálfgert olnbogabarn. Það má ekki breyta húsinu að utan, það má ekki byggja við það og ekki rífa það,“ en Villý hefur enginn svör fengið um hvað skuli gera með húsið eftir að honum er hent út.

„Allir segja mér að halda áfram að berjast, en við þurfum að loka,“ sagði Villý að lokum.

Við það að gefast upp Villý Þór Ólafsson er eigandi Hemma og Valda Fréttablaðið/Stefán



Fleiri fréttir

Sjá meira


×