Enski boltinn

"Van Persie var aldrei á leiðinni til City"

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Van Persie fagnar sigurmarki sínu í fyrri leiknum gegn City.
Van Persie fagnar sigurmarki sínu í fyrri leiknum gegn City. Nordicphotos/Getty
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur sett ofan í Roberto Mancini, kollega sinn hjá grannliðinu City. Ferguson segir að Hollendingurinn hafi aldrei verið á leiðinni til félagsins.

City sækir United heim í stórleik 31. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar sem sýndur er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 í kvöld. Flestir telja United þegar vera búið að tryggja sér titilinn en liðið vann dramatískan sigur í fyrri viðureign liðanna á Etihad-leikvanginum.

Mancini lét hafa eftir sér í viðtali í síðustu viku að fimmtán stiga forskot United í deildinni væri Robin Van Persie að þakka. Van Persie hefur skorað 19 mörk í deildinni í vetur eftir 24 milljóna punda söluna frá Arsenal í ágúst.

Mancini var einnig á höttunum eftir Hollendingnum sem ákvað á endanum að ganga í raðir Rauðu djöflanna. Ferguson hefur stráð salti í sár Mancini með ummælum sínum. Aðspurður hvort City hefði verið sterkara með Van Persie innanborðs sagði Ferguson:

„Menn geta velt því fyrir sér en hann hefði aldrei farið til City."

Van Persie hefur lítið skorað undanfarnar vikur og á sama tíma hefur United helst úr lestinni bæði í enska bikarnum og Meistaradeildinni. Í báðum keppnum fékk Van Persie úrvalsfæri á ögurstundu sem misfórust.

„Það er ekki bara Van Persie að þakka hve vel okkur hefur gengið. En jafnvel þegar hann skorar ekki spilar hann vel," segir Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×