Enski boltinn

Agüero tryggði City sigur í borgarslagnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Forysta Manchester United á toppi ensku úrvalsdeildarinnar minnkaði í tólf stig eftir að núverandi meistarar, Manchester City, hafði betur í grannaslag liðanna í kvöld, 2-1.

Eftir fjörlegar upphafsmínútur var fyrri hálfleikur að mestu tíðindalítill og staðan að honum loknum enn markalaus.

City komst svo yfir þegar að skot James Milner rataði í netið eftir að hafa breytt um stefnu á Phil Jones, sem spilaði sem miðvörður í dag.

Jones var þó aftur í eldlínunni stuttu síðar er hann skallaði fyrirgjöf Ryan Giggs úr aukaspyrnu í bak Vincent Kompany en af honum fór boltinn í netið.

Sergio Agüero, sem var ekki í byrjunarliðinu vegna meiðsla, kom svo inn á sem varamaður og tryggði City sigurinn með góðu marki. Hann tók frábæran sprett fram hjá varnarmönnum United og þrumaði knettinum í þaknetið af stuttu færi.

Undir lokin fóru nokkur gul spjöld á loft og litlu mátti muna að upp úr syði hjá erkifjendunum. En leiktíminn fjaraði út og City fagnaði góðum sigri á Old Trafford, annað árið í röð.

21 stig er eftir í pottinum og staða United á toppnum því enn sterk. City styrkti stöðu sína í öðru sæti deildarinnar verulega með sigrinum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×