Enski boltinn

Sigurmark Arsenal kom eftir aðeins tuttugu sekúndur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Theo Walcott tryggði Arsenal mikilvægan 1-0 sigur á Queens Park Rangers í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en stigin þrjú komu Arsenal-liðinu upp í þriðja sætið. Arsenal er nú tveimur stigum á undan Chelsea sem á leik inni á móti Manchester United á morgun.

Queens Park Rangers er fallið úr ensku úrvalsdeildinni en fékk sín tækifæri til að taka stig af Arsenal í þessum leik. Wojciech Szczesny, markvörður Arsenal, varði meðal annars frábærlega frá Loïc Remy sex mínútum fyrir leikslok.

Walcott skoraði sigurmarkið eftir aðeins tuttugu sekúndur en það kom eftir frábæra sókn og stungusendingu frá Mikel Arteta. Leikmenn Queens Park Rangers voru ekki búnir að snerta boltann þegar hann lá í markinu hjá þeim.

Walcott fékk fleiri tækifæri til að bæta við mörkum og átti meðal annars skot í stöngina á 26. mínútu. Arsenal byrjaði mun betur og var sterkari aðilinn þannig að sigur liðsins var heilt yfir sanngjarn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×