Enski boltinn

Bale kom enn á ný til bjargar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale.
Gareth Bale. Mynd/AFP
Gareth Bale var enn á ný hetja Tottenham-liðsins í dag þegar hann skoraði stórglæsilegt sigurmark fjórum mínútum fyrir leikslok þegar Tottenham vann Southampton 1-0 á heimavelli sínum á White Hart Lane. Bale hefur gert út um ófáa leiki Tottenham á þessu tímabili.

Gylfi Þór Sigurðsson fékk að spila síðustu tuttugu mínúturnar í leiknum en hann kom inn á fyrir Clint Dempsey á 72. mínútu leiksins. Andre Villas-Boas setti þá meira púður í sóknarleikinn sem skilaði sér í lokin en fram að því var sóknarleikur Tottenham liðsins bitlaus.

Gareth Bale skoraði markið sitt með þrumuskoti fyrir utan teig eftir að hafa einleikið inn að markinu frá hægri kantinum. Artur Boruc, markvörður Southampton, réð ekki við þessa neglu.

Það er búið að vera hlaða verðlaunum á Gareth Bale að undanförnu og hann sýndi af hverju með því að skora þetta magnaða mark sem getur verið eitt af þeim mikilvægari hjá Tottenham á tímabilinu.

Stigin þrjú skila Tottenham upp í fjórða sætið með jafnmörg stig og Chelsea sem er ofar á markatölu og einu stig meira en Arsenal. Arsenal á leik inni á móti Queens Park Rangers á eftir og Chelsea mætir Manchester United á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×