Enski boltinn

Rodgers: Eto'o var ekkert að spá í boltann

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Rodgers var ekki sáttur við allt hjá Webb dómara í dag.
Rodgers var ekki sáttur við allt hjá Webb dómara í dag. mynd/nordic photos/getty
„Við hefðum ekki getað átt tvo erfiðari leiki gegn tveimur liðum með frábæra leikmannahópa. Okkar hópur er þunnskipaður í augnablikinu. Við vorum betri gegn City og eftir að við komumst yfir í dag gáfum við lélegt mark,“ sagði Brendan Rodgers framkvæmdarstjóri Liverpool eftir 2-1 tapið gegn Chelsea í dag.

„Leikmennirnir stóðu sig frábærlega. Ef eitt eða tvö atvik hefðu fallið með okkur hefðu úrslitin kannski orðið önnur. Við vorum fáliðaðir í upphafi leiktíðar og við þurftum heppni með meiðsli og þar til fyrir fjórum vikum síðan vorum við það.

„Við höfum sýnt að þegar allir eru með getum við staðið í hverjum sem er. Ef heppnin er með okkur og við höldumst heilir þá getum við átt möguleika á titlinum í lok leiktíðar. Þetta er það jöfn deild að þú getur fallið úr efsta sæti niður í það fimmta. Ekkert er unnið að miðju móti. Það sem skiptir máli er að við eigum enn möguleika á þessum tímapunkti,“ sagði Rodgers sem var ekki sáttur við dómgæslu Howard Webb í leiknum.

Eto‘o var í tvígang brotlegur í leiknum þar sem hann slapp með skrekkinn. Fyrst braut hann á Jordan Henderson í upphafi leiks.

„Eto‘o var heppinn að haldast inni á vellinum. Þetta var mjög ljótt brot. Ég veit að við skoruðum úr því en hann kom ekki nálægt boltanum.“

Í seinna skiptið braut Eto‘o á Suarez innan teigs í seinni hálfleik en ekkert var dæmt.

„Þú hefur séð dæmd víti á þetta og Eto‘o var ekkert að spá í boltanum. Hann ætlaði að vera klókur og hindra för Luis. Ef hann hindrar leikmanninn viljandi þá er það víti ekki satt? Howard Webb var vel staðsettur og við verðum að samþykkja hans ákvörðun og halda áfram,“ sagði Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×