Innlent

Líf og fjör í Laugardalnum

Það er nóg um að vera fyrir Reykvíkinga á öllum aldri sem vilja njóta þess að vera útivið í góða veðrinu og hitta mann og annan. Útihátíð er í Grafarholti, útimarkaður í Laugardal og hjólabrettamót í Fellagörðum.

Hjólabrettamótið Skate Sultan fer fram í Fellagörðum við Eddufell frá klukkan þrjú til sex í dag. Móthaldarar segja unga sem aldna velkomna á mótið og þeir sem geti lagt bretti undir iljar séu sérstaklega hvattir til að mæta, sýna sig og sjá aðra. Ekki er um formlega keppni að ræða en veitt verða verðlaun fyrir besta trikkið, frumlegasta trikkið, asnalegasta trikkið, hæsta kickflippið og alls konar aðra vitleysu eins og fram kemur í lýsingu á viðburðinum á fésbókarsíðu hans.

Íbúasamtök Laugardals standa fyrir árvissum útimarkaði við skátaheimili Skjöldunga. Útimarkaðurinn er nú haldinn í ellefta sinn, en á hverju ári er honum fundinn nýr staður á einhverju áhugaverðu opnu svæði innan Laugardalshverfanna þriggja. Í tilkynningu segir að um 160 seljendur hafi skráð sig að þessu sinni og að á útimarkaðnum kenni ýmissa grasa á söluborðum íbúa.

Ávallt sé mikil stemning á markaðnum og skemmtilegar uppákomur séu stór hluti af aðdráttarafli hans. Eldhresst hæfileikafólk á öllum aldri úr Voga-, Langholts- og Laugarneshverfi muni troða upp og skemmta sér og öðrum við leik og söng.

Í Holtinu heima kallast síðan hverfishátíð sem haldin er í Grafarholti frá klukkan eitt í dag. Berghildur Erla Bernharðsdóttir formaður Íbúasamtaka Grafarholts segir að hátíðin sé nú haldin í annað sinn.

„Og mikil stemming. Við verðum með markað niður í Leirdalnum þar sem verða að minnsta kosti á þriðja tug söluaðila ef ekki fleiri. Þar verður jafnframt skemmtun með ýmislegt í boði fyrir fjölskylduna, leikir og annað. Svo ætlar stórsöngvarinn Hreimur að koma og spila um klukkan þrjú en svo viðljum við gjarnan mynda stemmingu fyrir bikarúrslitaleikinn þar sem okkar menn (Fram) leikur á móti Stjörnunni á Laugardalsvelli í dag,“ segir Berghildur Erla.

Fólk sé einnig hvatt til að grilla við hús sín til að skapa stemmingu í hverfinu og í kvöld klukkan níu verði síðan kvöldskemmtun í Leirdalnum þar sem hljómsveitin Feðgarnir halda uppi fjörinu. Og þá verður stiginn dans.

„Þá verður stiginn dans og vonandi sungið mikið,“ segir Berghildur Erla.

Það var líf og fjör í Laugardalnum í dag þegar árlegur útimarkaður var haldinn.Myndir/Jóhannes Stefánsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×