Íslenski boltinn

Ríkharður Daða: Nú verður léttara að vinna næsta bikar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ríkharður Daðason, þjálfari Fram.
Ríkharður Daðason, þjálfari Fram. Mynd/Anton
Ríkharður Daðason, þjálfari Fram, tók við liðinu á miðju tímabili af Þorvaldi Örlygssyni og í kvöld gerði hann Safamýrarliðið að bikarmeisturum í Laugardalnum. Þetta var fyrsti titill félagsins í 23 ár.

„Við fórum inn í hálfleik í mjög erfiðari stöðu en við héldum trúnni. Ég sá þegar kviknaði á strákunum þegar við börðum á því að þetta væri ekki búið því það voru 45 mínútur eftir," sagði Ríkharður Daðason í viðtali við Arnar Björnsson í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport frá bikarúrslitaleik Fram og Stjörnunnar.

Fram var 0-2 undir í hálfleik og náði síðan að jafna metin í bæði 2-2 og 3-3 áður en liðið tryggði sér bikarinn í vítakeppni.

„Auðvitað fáum við þetta mikilvæga mark fljótlega í seinni hálfleik til að gefa okkur trúna. Þá var bara eins marks munur. Ég skal alveg játa það að þegar við vorum lentir 2-3 undir og það var lítið eftir þá stóð þetta tæpt. Við tókum gamlan reyndan miðvörð af velli sem var orðinn haltur og breyttum í þriggja manna vörn og settum allt undir. Sem betur fer fengum við þetta þriðja mark," sagði Ríkharður.

En þjálfar Ríkharður Daðason Framliðið áfram?

„Ég þarf að fá tilboð um að þjálfa liðið áfram. Það er ekki komið svo langt og svo er ég ekki löglegur þjálfari. Það verður bara að koma í ljós hvað verður," sagði Ríkharður sem á eftir að ná sér í nauðsynleg þjálfararéttindi.

„Að sjálfsögðu vil ég þjálfa liðið áfram. Þetta er hópur sem getur gert stóra hluti og við erum búnir að spila best í sumar á móti bestu liðunum í deildinni. Þessi endurkoma sýnir það hvaða styrkur býr í hópnum og það eru bara forréttindi að fá að vinna með svona strákum og ég vil gjarnan halda því áfram," sagði Ríkharður.

„Við getum sagt að það er búið að rjúfa langa eyðumerkurgöngu og þá verður léttara að vinna næsta bikar," sagði Ríkharður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×