Innlent

Sakfelldur fyrir vörslu fíkniefna og peningaþvætti

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Fíkniefnin voru gerð upptæk.
Fíkniefnin voru gerð upptæk.
Karlmaður var í dag dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir fíkniefnalagabrot fyrir að hafa í nóvember 2010 haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni rúmlega 141 kíló af Marijúana, ásamt tóbaksblönduðu kannabisefni og kannabislaufum. Þá var maðurinn dæmdur fyrir peningaþvætti fyrir að hafa um nokkurt skeið aflað sér ávinnings að fjárhæð rúmlega 1,5 milljóna króna með sölu og dreifingu ótilteknis magns ávana- og fíkniefna.

Málið komst upp þegar lögreglan hafði afskipti af fíkniefnaviðskiptum annars manns og veitti því athygli að farsími sem hann var með í fórum sínum hringdi látlaust, auk þess sem smáskilaboð bárust í símann. Taldi lögreglan þetta gefa til kynna að maðurinn stundaði sölu fíkniefna en við skoðun á símanum kom í ljós að símtöl voru flutt í hann úr síma sem skráður var á þann dæmda.

Við húsleit á heimili mannsins fannst töluvert magn af kannabisefnum, skál með hassolíu í eldhúsi, kistill með pokum af kannabisfræjum, og 85 „zip-lock“ pokar með kannabisleyfum, ásamt öðru. Þá fundust fjármunirnir á heimilinu en maðurinn hélt því fram að hann hefði unnið fyrir þessum peningum með erfiðisvinnu og lagt þá fyrir en þeir væru ekki tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Sagðist hann í yfirheyrslu hjá lögreglu hafa farið að selja fíkniefni eftir að hann missti vinnu þegar kreppan skall á en hann hafi stundað söluna og ræktun í um tvö ár.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að skýringar mannsins á tilurð „sparnaðarins“ væru ótrúverðugar og dæmdi manninn í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi, ásamt því sem bæði fíkniefnin og peningarnir voru gerð upptæk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×