Enski boltinn

Everton og Liverpool skildu jöfn á Goodison Park

Stefán Árni Pálsson skrifar
Everton og Liverpool mættust í nágrannaslag á Goodison Park í Liverpool og var um magnaðan leik að ræða. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli en öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik.

Liverpool byrjaði leikinn betur og komust yfir eftir tæplega korters leik. Luis Suarez, leikmaður Liverpool, fékk boltann inní teig eftir mikið klafs og skaut boltanum í Leighton Baines, leikmann Everton, og í netið.

Luis Suarez var síðan aftur á ferðinni stuttu síðar þegar hann skallaði boltann í netið eftir frábæra aukaspyrnu frá Steven Gerrard. Leikmenn Everton voru ekki tilbúnir að leggja árar í bát og neituðu að gefast upp.

Aðeins tveim mínútum eftir mark Suarez náði Everton að minnka muninn. Leon Osman, leikmaður Everton, skoraði fínt mark eftir slæm mistök frá Brad Jones, markverði Liverpool.

Tíu mínútum fyrir lok fyrri hálfleiksins náði Everton að jafna metin þegar Steven Naismith skoraði flott mark eftir frábæran undirbúning frá Marouane Fellaini. Staðan var því 2-2 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var mun rólegri en sá fyrri og náðu liðin ekki að skora fleiri mörk. Luis Suarez skoraði mark á 94. mínútu leiksins sem var dæmt af vegna rangstöðu, rangur dómur og Liverpool-menn rændir sigrinum.

Niðurstaðan því jafntefli á Goodison Park. Liverpool er í 12. sæti deildarinnar með 10 stig en Everton er í því fjórða með 16 stig, fín byrjun hjá þeim bláklæddu á tímabilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×