Í beinni á KEXP.ORG
Útvarpsstöðin frá Seattle, KEXP.ORG stendur fyrir fimmtán tónleikum í beinni útsendingu með íslenskum flytjendum á hátíðinni. Sóley stígur fyrst á svið. Á eftir henni koma svo í halarófu Blouse frá Bandaríkjunum, Tilbury, Mr. Silla og FM Belfast.
Miðvikudagur.
Kex Hostel frá kl. 13.
Corley stígur á svið
Útgáfufyrirtækið Bedroom Community verður með off venue-bækistöðvar á Kaffibarnum. Bandaríkjamaðurinn Paul Corley er nýjasti listamaður útgáfunnar og sá sjöundi í röðinni. Hann hefur unnið náið með meðlimum Bedroom Community í fjölmörg ár. Fyrsta plata hans, Disquiet kom út 5. nóvember á heimsvísu.
Fimmtudagur.
Kaffibarinn kl. 17.00
Tvíhöfðamenn snúa aftur
Borgarstjórinn Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson, úr gríntvíeykinu Tvíhöfða, syngja með hljómsveitinni Kleópötru. Athyglisvert, svo ekki sé nú meira sagt.
Fimmtudagur.
Íslenski barinn kl. 18.
Einu tónleikar Of Monsters and Men
Þetta verða einu tónleikar Of Monsters and Men utan dagskrár. Hljómsveitin hefur slegið rækilega í gegn á þessu ári úti í heimi og fyrir aðdáendur hennar sem náðu ekki að tryggja sér miða á Airwaves er þetta algjörlega málið. Ásgeir Trausti og Valdimar spila á undan. Ekki amaleg upphitun þar á ferð.
Föstudagur.
Marina Hótel kl. 18.

Hjaltalín spilar undir þöglu myndinni Days of Gray í fyrsta sinn hér á landi. Myndin fjallar um ævintýri drengs og stúlku og var tónlistin samin af hljómsveitinni sérstaklega fyrir myndina.
Föstudagur.
Bíó Paradís kl. 18.30.
Jónas og Mugison mæta
Hvorki Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar né Mugison spila á Airwaves-hátíðinni í ár. Jónas spilar samt á nokkrum stöðum utan dagskrár, þar á meðal þessum, en þetta verða einu tónleikarnir hjá Mugison. Woodpigeon frá Kanada og Biggi Hilmars troða einnig upp.
Föstudagur
Netagerðin frá kl. 16.
Hörkustemning í MH
Búast má við miklu stuði í Menntaskólanum við Hamrahlíð. RetRoBot sem vann Músíktilraunir fyrr á árinu hefur leikinn og rapparinn Gísli Pálmi tekur við. Hljómsveitin Bloodgroup mætir svo í MH til leiks áður en Ultra Mega Technobandið Stefán rekur endahnútinn á tónleikaveisluna.
Föstudagur.
Menntaskólinn við Hamrahlíð frá kl. 16.