Fótbolti

Rivaldo er enn að spila - þrettánda félagið hans er í Angóla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rivaldo og Ronaldo fagna saman heimsmeistaratitlinum 2002.
Rivaldo og Ronaldo fagna saman heimsmeistaratitlinum 2002. Mynd/Nordic Photos/Getty
Brasilíumaðurinn Rivaldo sem var á sínum tíma kosinn besti knattspyrnumaður í heimi er ekkert tilbúinn að setja skóna upp á hillu þótt að hann sé að verða fertugur í apríl.

Þrettánda félag Rivaldo á ferlinum verður Kabuscorp frá Angóla sem varð í öðru sæti í heimalandinu á síðasta tímabili. Rivaldo sagði ein af aðalástæðunum fyrir því að hann sé á leiðinni til Angóla sé að þar sé töluð portúgalska eins og í Brasilíu.

Rivaldo spilaði með Barcelona á hátindi ferils síns en hann var kosinn besti knattspyrnumaður heims árið 1999. Rivaldo varði síðan í lykilhlutverki þegar Brasilíumenn urðu síðast heimsmeistarar árið 2002.

Rivaldo hefur verið að spila hingað og þangað um heiminn eftir að hann yfirgaf AC Milan árið 2004. Hann hefur frá þeim tíma spilað í Brasilíu, Grikklandi og Úsbekistan en var síðast að spila fyrir Sao Paulo í Brasilíu.

Rivaldo hefur nú náð því að spila í fjórum heimsálfum enda nú kominn til Afríku eftir að hafa líka prófa Evrópu, Asíu og svo að sjálfsögðu Suður-Ameríku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×