Enski boltinn

Ballack boðið sjónvarpshlutverk í Bandaríkjunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Ballack fagnar í leik með Leverkusen.
Michael Ballack fagnar í leik með Leverkusen. Nordic Photos / Getty Images
Michael Ballack, fyrrverandi landsliðsfyriliða Þýskalands, hefur verið boðið að vera sérfræðingur bandarísku ESPN-sjónvarpsstöðvarinnar í umfjöllun hennar um EM í fótbolta í sumar.

Ballack hefur ekki náð miklum árangri á fótboltavellinum síðustu mánuðina eftir glæsilegan feril hjá Bayer Leverkusen, Bayern München og Chelsea. Nú er hann á mála hjá Leverkusen á ný en er ósáttur við þjálfara liðsins og er jafnvel á leið frá félaginu.

Hann hefur verið sterklega orðaður við New York Red Bulls og því möguleiki að hann verði samherji Guðlaugs Victors Pálssonar sem mun að öllu óbreyttu semja við liðið á næstu dögum. Þar eru einnig Thierry Henry og Rafael Marquez.

Þýskir fjölmiðlar greina frá þessu í dag og velta því fyrir sér hvort að Ballack muni gagnrýna þýska liðið harkalega. Það er reyndast efast um það en Ballack átti að vera með á síðasta stórmóti, HM í Suður-Afríku, en meiddist og gat því ekki gefið kost á sér.

Ballack á 98 landsleiki að baki og var því grátlega nálægt því að rjúfa 100 leikja múrinn. Hann er 35 ára gamall og fær væntanlega ekki fleiri tækifæri með þýska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×