Fótbolti

Ísland á betri möguleika á HM-sæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins. Mynd/Anton
Íslenska landsliðið í knattspyrnu á nú tvöfalt betri möguleika en áður að komast í næstu úrslitakeppni HM kvenna.

Hingað til hafa sextán þjóðir komist í úrslitakeppni HM en 24 lið munu komast í keppnina sem haldin verður í Kanada árið 2015.

Fjögur lið komust úr undankeppni HM í Evrópu fyrir síðustu keppni en þá fór keppnin fram í Þýskalandi. Heimamenn voru svo fimmta Evrópuþjóðin en Þýskaland þurfti vitanlega ekki að taka þátt í undankeppninni.

Nú hefur verið tilkynnt að átta Evrópuþjóðir muni komast í gegnum undankeppnina og með því ljóst að möguleikar Íslands á sæti í keppninni munu stóraukast. Þó hefur ekki verið tilkynnt með hvaða fyrirkomulagi undankeppnin í Evrópu verður haldin.

Einn möguleikinn er sá að liðunum verði skipt í átta riðla og siguvegari hvers riðils komist áfram á HM. Ísland er sem stendur tíunda sterkasta lið Evrópu, samkvæmt styrkleikalista FIFA.

Ísland stendur nú í ströngu í undankeppni EM 2013 en stelpurnar mæta Ungverjum á Laugardalsvelli klukkan 16.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×