Innlent

Hæstiréttur sakfelldi 171 níðing á 90 árum

Alls hefur 171 karlmaður verið sakfelldur í Hæstarétti fyrir kynferðisbrot gegn barni á árunum 1920 til 2011. Dómarnir eru 162 og þar af eru stúlkur þolendur í 144 málanna, eða í tæplega 90 prósentum tilvika. Engin kona hefur verið sakfelld á Íslandi fyrir kynferðisbrot gegn barni, hvorki í héraði né Hæstarétti.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar Svölu Ísfeld Ólafsdóttur, dósents við lagadeild Háskólans í Reykjavík, á öllum dómum Hæstaréttar frá stofnun réttarins árið 1920 til 2011 þar sem sakfellt hefur verið fyrir kynferðisbrot gegn barni.

„Markmið rannsóknarinnar er að draga upp mynd af gerendum þessara brota. Hverjir fremja brotin, hvort tengsl séu á milli geranda og þolanda, á hvaða aldri gerendur eru og hver bakgrunnur þeirra sé," útskýrir Svala.

Algengasta aldursbil gerenda og þolenda er 26 til 30 ár þegar mennirnir brutu af sér en meðalaldur við brot tæp 37 ár. Langflestir þolendur voru stúlkur á aldrinum 7 til 12 ára.

Samkvæmt rannsókn Svölu þekkjast gerandi og þolandi í um helmingi tilvika. Af þeim voru tæplega 25 prósent gerenda í nánustu fjölskyldu brotaþolans, oftast feður og stjúpfeður. Einungis fjögur prósent gerendanna, átta af 171, höfðu áður hlotið dóm fyrir kynferðisbrot, þar af brutu fjórir gegn barni. Í sextán málum var fjallað um kynhneigð gerendanna og hvort þeir teldust haldnir barnagirnd. Sú var niðurstaðan í sex dómum af 162.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×