Innlent

Ósammála um vægi trúnaðarmannahóps

Hópurinn samþykkti að fella út 60/40 regluna og 3% klípuna svokölluðu, en það eru veigamikil atriði í málinu.
Hópurinn samþykkti að fella út 60/40 regluna og 3% klípuna svokölluðu, en það eru veigamikil atriði í málinu. fréttablaðið/óskar
Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í trúnaðarmannahópi fulltrúa stjórnmálaflokkanna um stjórn fiskveiða eru sammála um að formenn stjórnarflokkanna hafi skuldbundið sig til að leggja fram breytt frumvarp með þeim breytingum sem hópurinn yrði ásáttur um.

Stjórnarþingmenn sjá málið í öðru ljósi. Landssamband íslenskra útgerðarmanna telur plaggið ekki skipta nokkru máli og heildarendurskoðun á öllu málinu þurfi að eiga sér stað. Það eigi bæði við um nýsett lög um veiðigjöld og frumvarpið sem nú er til umfjöllunar og verður lagt fyrir þingið á næstu vikum.

Einar K. Guðfinnsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í hópnum, segir fyrirliggjandi yfirlýsingu formanna stjórnarflokkanna, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, um að þau atriði sem hópurinn næði samkomulagi um yrðu lögð til grundvallar vinnu ríkisstjórnarinnar við frumvarp um stjórn fiskveiða. „Við náðum saman um mörg stór veigamikil atriði sem þar með hlýtur að sjá stað í frumvarpinu sem lagt verður fram á haustþingi. Um önnur atriði, sem við náðum ekki saman um, hefur ríkisstjórnin óbundnar hendur. Yfirlýsing stjórnarforystunnar frá því í vor var eins skýr og hún gat verið.“

Einar telur ljóst að hópurinn hefði aldrei sest niður ef þetta atriði hefði ekki legið fyrir; að vinnan hefði vigt.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fulltrúi Framsóknar í hópnum, segist hafa nákvæmlega sama skilning og Einar á meðferð niðurstaðna trúnaðarmannahópsins. „Við munum túlka það sem fullkomin svik ef þetta stendur ekki. Ég trúi því ekki að oddvitar ætli ekki að standa við það sem þeir skrifuðu upp á.“

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, sagði í viðtali við Smuguna í gær að engin skuldbinding fælist í niðurstöðum hópsins. Ráðherra væri frjálst að fara með tillögurnar eins og honum þætti rétt.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, lagði fram bókun á fundi atvinnuveganefndar þar sem tildrög hópsins, vinnuaðferðir og efnisatriði voru gagnrýnd. Í bókun Ólínu segir að fjórmenningarnir hafi ekki hlotið umboð atvinnuveganefndar eða þingflokka stjórnarflokkanna til sinna starfa. „Hópurinn er sjálfskipaður hluti nefndarmanna í atvinnuveganefnd sem fengið hefur samþykki forystumanna ríkisstjórnarinnar til þess að leita niðurstöðu sín á milli um fiskveiðistjórnunarfrumvarp atvinnuvegaráðherra sem sátt geti náðst um,“ bókaði Ólína.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×