Innlent

Kæra lausagöngu sauðfjár

Deilt er um lausagöngu sauðfjár í Dalabyggð. Þar þykir landeigendum á Erpsstöðum sem eigendur kindanna ættu að gæta þess að þær valdi ekki hættu og gangi á annarra manna lönd.
Deilt er um lausagöngu sauðfjár í Dalabyggð. Þar þykir landeigendum á Erpsstöðum sem eigendur kindanna ættu að gæta þess að þær valdi ekki hættu og gangi á annarra manna lönd. Fréttablaðið/Vilhelm
Ábúendur á Erpsstöðum í Miðdölum í Dalabyggð hafa kært til lögreglu lausagöngu sauðfjár í sveitinni.

Vísað er til kafla um ágang afréttarpenings í lögum um afréttarmálefni, fjallskil og fleira. Þar kemur fram að komi til ágangs búfjár sem heimilt sé að hafa í heimahögum beri sveitarstjórn að „láta smala ágangsfénaði og reka þangað, sem hann á að vera, á kostnað eigenda“, en í lögunum kemur jafnframt fram að sinni sveitarstjórn ekki skyldum sínum í þessum efnum, að mati lögreglustjóra, skuli hann láta smala ágangsfénaði á kostnað eigenda.

Erindi ábúenda á Erpsstöðum var í ágúst tekið fyrir bæði í byggðarráði og sveitarstjórn Dalabyggðar.

Í afgreiðslu sveitarstjórnar frá 21. ágúst er bent á að í Dalabyggð séu engir afréttir, heldur skiptist landið í heimalönd og önnur beitilönd sem nytjuð séu sem sumarhagar. Því eru ekki taldar forsendur til að sveitarstjórn eða fjallskilanefnd fyrirskipi smölun á svæðinu.

„Sveitarstjórn tekur undir að brýnt sé að fjárheldar veggirðingar séu með vegum og hvetur Vegagerðina og landeigendur til að gera stórátak í þessu efni,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

„Við erum í miðri sveitinni og eigum ekki land að neinum afrétti,“ segir Helga Elínborg Guðmundsdóttir, bóndi á Erpsstöðum. „Og frá byrjun júlí streymir fé niður dalinn og frá afréttinum og dvelur löngum stundum á túnunum okkar.“ Hún segist vita að tún séu illa girt hjá þeim, en bendir á að fénaðurinn þurfi að fara í gegn um aðrar girðingar áður en komi að þeirra landi. „Girðingarnar sem eiga að halda þeim á afréttinum eru ónýtar og þetta bara afgreitt sem okkar mál. Síðan eru kindurnar náttúrulega líka að vappa hér uppi á þjóðvegi númer 60 [Vestfjarðavegi] sem liggur í gegn um landið okkar,“ bætir hún við og kveðst vita til þess að þar hafi í sumar verið ekið á að minnsta kosti tvö lömb. „Núna er komið haust og farið að dimma klukkan tíu og stórhætta sem af þessu stafar.“

Guðbrandur Þorkelsson, formaður fjallskilanefndar í Dalabyggð, segir meirihluta sauðfjár bænda í sveitarfélaginu halda sig uppi í fjöllum þar sem hann eigi að vera, en viðurkennir þó að undanfarin þrjú ár hafi stóraukist sá fjöldi sem er niðri í byggð yfir sumartímann. Hann segir lítið hægt að gera í þessu, annað en að Vegagerðin sinni því betur að girða af vegi. olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×