Innlent

Starfshópur um staðgöngu skipaður

Kristrún Heimisdóttir
Kristrún Heimisdóttir
Kristrún Heimisdóttir, lektor í lögfræði, er formaður starfshóps sem skipaður hefur verið til að gera lagafrumvarp sem heimilar staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Hrefna Friðriksdóttir, lektor í lögfræði, og Sigurður Kristinsson, siðfræðingur og forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri, sitja einnig í hópnum. Þá hefur verið ákveðið að Karen Busby, lagaprófessor við Manitoba-háskóla, verði starfshópnum til ráðgjafar.

Alþingi ályktaði í janúar síðastliðnum að fela velferðarráðherra að undirbúa frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Unnið hefur verið að því að skipa starfshóp síðustu mánuði, en eins og Fréttablaðið greindi frá í sumar hefur það reynst erfitt.

Starfshópurinn á að skila ráðherra frumvarpstexta og greinargerð „sem byggir á bestu þekkingu og rannsóknum um málefnið“ að því er fram kemur í skipunarbréfi. Þá á að gera grein fyrir meginspurningum á sviði lögfræði, siðfræði, læknisfræði og fleiri fræði- og vísindagreina þar sem fjallað hefur verið um staðgöngumæðrun auk þess sem skoða á löggjöf í öðrum ríkjum. Þá á að leggja áherslu á að hagur og réttindi barns, sjálfræði og velferð staðgöngumóður og fjölskyldu hennar og farsæl aðkoma verðandi foreldra verði tryggð.

Í greinargerð með frumvarpinu á einnig að koma fram hvernig staðgöngumæðrun verði færð inn í íslenskt réttarkerfi. Þá verði að leitast við að uppfylla kröfur þingsins um skýrleika og traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur um framkvæmd og eftirlit með staðgöngumæðrun. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×