Erlent

Margir valkostir Romneys

Mitt Romney hefur lítið gefið upp um hvern hann hyggst hafa með sér sem varaforsetaefni í komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum. Hann sést hér með Tim Pawlenty og Kelly Ayotte sem hafa bæði verið orðuð við hnossið.
Mitt Romney hefur lítið gefið upp um hvern hann hyggst hafa með sér sem varaforsetaefni í komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum. Hann sést hér með Tim Pawlenty og Kelly Ayotte sem hafa bæði verið orðuð við hnossið. Nordicphotos/AFP
Spennan magnast stöðugt fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum þar sem repúblikaninn Mitt Romney freistar þess að velta demókratanum Barack Obama úr sessi. Eitt helsta umræðuefnið þessa dagana er val Romneys á varaforsetaefni, en þar eru margir kallaðir.

Það er auðvelt að oftúlka hlutverk varaforsetaefnis og halda að það muni koma til með að skipta sköpum á kjördag. Hins vegar er jafn ljóst að réttur einstaklingur sem varaforsetaefni getur skerpt á stefnu aðalframbjóðanda þegar mikið ríður á og kjördagur nálgast óðum. Þá er einn af þeim þáttum sem horft er til hvort varamaðurinn vegi upp á móti veikleikum forsetaframbjóðandans.

Þegar John McCain kynnti Söruh Palin til sögunnar sem varaforsetaefni fyrir kosningarnar 2008 varð það í fyrstu til að auka til muna kraftinn í herferð McCains, enda höfðaði Palin mjög eindregið til ákveðins hóps í kjarna flokksins.

Heittrúuð fjölskyldukona með reynslu af framkvæmdavaldi sem borgarstjóri og ríkisstjóri í Alaska, alls ótengd „spillingaröflunum“ í Washington, varð til þess að fylgi McCain stórjókst á um tveggja vikna tímabili, sérstaklega meðal trúaðra og kvenna.

Afleikur hans eftir hrun Lehman Brothers varð honum hins vegar að falli, en á sama tíma hafði Palin komið illa út úr viðtölum í fjölmiðlum. Á meðan náði Obama vopnum sínum og vann afgerandi sigur.

Staða Romneys nú er mun betri en hjá McCain. Þó að hann sé nokkuð á eftir Obama í skoðanakönnunum sem stendur er langt í nóvember og fjáröflun Romneys hefur gengið gríðarvel síðustu mánuði.

Veikleikar Romneys eru þó nokkrir og komu berlega í ljós í forvali repúblikana. Í fyrsta lagi eru það félagslegu málin, til dæmis fóstureyðingar og réttindi samkynhneigðra. Þótt Romney sé í dag einarður í skoðunum hafa fyrri yfirlýsingar hans þótt gefa mynd af frjálslyndum manni og skaðað stöðu hans hjá íhaldssamari öflum.

Í annan stað er Romney af efnafólki kominn og gekk í dýra einkaskóla. Í dag er hann vellauðugur eftir áratuga störf í fjárfestingageiranum. Vegna þessa hafa repúblikanar áhyggjur af því að hann nái ekki að höfða til millistéttarinnar (og liðsmenn Obama hafa sannarlega gert sér mikinn mat úr því).

Í ljósi þess hve munurinn er mjór á milli frambjóðenda er stærsti vandi Romneys að finna meðreiðarsvein sem getur hjálpað honum að finna jafnvægi og höfða bæði til íhaldssamari arms eigin flokks og óákveðinna kjósenda. Hann þarf að treysta fylgi sitt á hægri vængnum en má ekki fara of langt.

Margir kallaðir

Frá því að Romney tryggði sér útnefningu Repúblikanaflokksins hafa fjölmargir verið nefndir sem hugsanleg varaforsetaefni.

Sá sem einna lengst hefur verið viðloðandi umræðuna er öldungadeildarþingmaðurinn Marco Rubio. Hann hefur flest til að bera sem getur prýtt meðframbjóðanda Romneys, ungur og kraftmikill maður með afar íhaldssamar skoðanir og af kúbverskum ættum, sem er talið geta höfðað til minnihlutahópa sem hafa síður en svo verið gefnir fyrir Romney. Síðast en ekki síst er Rubio frá Flórída, sem er eitt af lykilríkjunum í komandi kosningum.

Innan öldungadeildarinnar eru þau Kelly Ayotte og John Thune nefnd til sögunnar. Ayotte er fyrrum saksóknari, sem var kjörin í öldungadeildina árið 2010 og er ein af vonarstjörnum flokksins. Thune er talinn afar frambærilegur að flestu leyti. Öflugur frambjóðandi sem hefur getið sér gott orð innan veggja þinghússins Capitol, en gæti liðið fyrir að vera full varkár í orðum og gjörðum.

Í kosningum í Bandaríkjunum hefur síðustu ár og áratugi verið talið mönnum til tekna að vera ósnortnir af spillingunni í Washington. Þess vegna hafa ríkisstjórar oft verið sterkir frambjóðendur og að þessu sinni eru nokkrir slíkir orðaðir við Romney, þar á meðal Chris Christie, ríkisstjóri í New Jersey og Bob McDonnel, ríkisstjóri Virginíu.

Condoleeza Rice, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur hins vegar sagt skýrt að hugur hennar standi ekki til framboðs með Romney.

Varla úr óvæntri átt

Þeir sem hér eru nefndir eru einstaklingar sem fjölmiðlar vestra hafa haldið á lofti, en ekki er útséð um að Romney leiti á önnur mið fyrir flokksþingið í ágúst.

Þó er ekki talið líklegt að hann velji sér meðframbjóðanda úr óvæntri átt. Sérfræðingar sem AP-fréttastofan ræddi við segja Romney ekki líklegan til að taka mikla áhættu með valinu. Það verður altjent örugglega ekki ný Sarah Palin.

Val McCains á Palin var enda örþrifaráð, sem mistókst á endanum, en þess gerist líklega ekki þörf hjá Romney sem ætti að geta valið af meiri kostgæfni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×