Erlent

Kapphlaupið um miðjuna er hafið

Mitt Romney veit sem er að lykillinn að sigri í forsetakosningum er að ná til fólksins. Hann settist niður með fólki í Pennsylvaníuríki fyrr í vikunni og ræddi málin. Nordicphotos/AFP
Mitt Romney veit sem er að lykillinn að sigri í forsetakosningum er að ná til fólksins. Hann settist niður með fólki í Pennsylvaníuríki fyrr í vikunni og ræddi málin. Nordicphotos/AFP
Hver er staða Mitts Romneys í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum? Þegar Rick Santorum tilkynnti að hann hygðist draga sig út úr baráttunni um útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í haust varð endanlega ljóst það sem lengi hafði stefnt í. Mitt Romney átti útnefninguna vísa.

Romney hefur þegar hafið kosningabaráttuna og lætur einskis ófreistað til að koma höggi á Barack Obama, sitjandi forseta og frambjóðanda demókrata.

Enn sem komið er hefur Obama forystu gegn Romney í flestum skoðanakönnunum, en sú staða gæti hæglega breyst. Helstu vandamál Romneys eiga sér rætur í forvalsbaráttunni þar sem baráttan var einstaklega hörð og ekkert gefið eftir.

Andstæðingar Romneys, aðallega Santorum og Newt Gingrich, hafa deilt harkalega á Romney vegna ístöðuleysis hans í mörgum lykilmálum og hafa sagst efast um að hann sé íhaldsmaður í raun. Í baráttunni hefur hann því fært sig talsvert út á hægri vænginn til að elta fylgi.

Það hefur óhjákvæmilega kostað Romney nokkuð fylgi hjá óákveðnum kjósendum, en það er jafnan lykillinn að sigri í kosningum. Auk þess stendur hann höllum fæti meðal kvenna og kjósenda af rómönskum uppruna.

Þá glímir Romney einnig við ímyndarvanda. Bæði þykir hann ekki vera hrífandi persónuleiki, þurr á manninn og hálf litlaus, en einnig líður hann fyrir eigið ríkidæmi. Hann hefur til dæmis látið falla nokkur ummæli sem þykja bera þess vott að hann sé úr tengslum við almenna kjósendur. Loks komst í hámæli fyrir skemmstu að hann greiddi talsvert lægri hluta af gríðarháum tekjum sínum í skatt en almennir launamenn úr sínu launaumslagi.

Þrátt fyrir allt ofansagt á Obama sigurinn alls ekki vísan þar sem hann þarf að standa með sínum embættisverkum, sem mörgum þykja ekki hafa skilað ásættanlegum árangri við að örva efnahagslífið og sigrast á atvinnuleysi.

Baráttan er þegar hafin og Romney og Obama eru að safna peningum fyrir dýrustu kosningabaráttu allra tíma. Hvor um sig stefnir að því að hafa um milljarð dala til reiðu til að koma boðskap sínum á framfæri.

Ómögulegt er að spá um hvernig fer, en staðreynd málsins er að sitjandi forsetar hafa jafnan borið sigur úr býtum.

Möguleikar Romneys gegn Obama felast eflaust í að vinna hylli á miðjunni án þess þó að ganga gegn fyrri yfirlýsingum og loforðum til kjósenda yst á hægri vængnum. thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×