Ef athygli okkar verður vakin á óviðeigandi ummælum eða hegðun meðal áhorfenda verður tekið á því af festu," segir í yfirlýsingu sem lögreglan á Merseyside-svæðinu, varnarþingi Liverpool, sendi frá sér í vikunni vegna viðureignar Liverpool og erkifjendanna í Manchester United í ensku bikarkeppninni sem fram fer í dag.
Leikir þessara tveggja sigursælustu liða í sögu enskrar knattspyrnu hafa áratugum saman verið þrungnir spennu. Utanaðkomandi aðstæður valda því þó að margir hræðast óvenju mikið að upp úr sjóði milli aðdáenda liðanna tveggja í dag með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Yfirlýsing Merseyside-lögreglunnar ber þessum titringi berlega vitni.
Suárez dæmdur í bann

Eftir leikinn kærði Evra Suárez fyrir að hafa beitt sig kynþáttaníði. Suárez neitaði ásökununum og bæði félögin studdu sína leikmenn í hvívetna. Knattspyrnusambandið skipaði nefnd sem gerði rannsókn á atvikinu og voru niðurstöður hennar, sem birtar voru í 115 síðna langri skýrslu, á þá leið að Suárez hefði gerst brotlegur við reglur sambandsins.
Í grófum dráttum gekk vörn Suárez út á að orðið negro, sem Suárez var dæmdur fyrir að nota um Evra, gæti haft allt aðra og jákvæðari merkingu í Suður-Ameríku en í Evrópu. Þessu hafnaði rannsóknarnefndin og tók jafnframt fram að Frakkinn hefði verið áreiðanlegt vitni, öfugt við Úrúgvæjann.
Stjórnendur Liverpool ákváðu að áfrýja ekki úrskurði nefndarinnar en ítrekuðu trú sína á sakleysi Suárez og héldu því fram að í raun og veru hefði ekkert saknæmt sannast á leikmanninn. Í sama streng tóku ýmsir sem rýndu í skýrsluna og sögðu hana einungis réttlætingu á fyrirframgefinni niðurstöðu. Aðrir fögnuðu banninu á Suárez og sögðu það lið í þeirri viðleitni að losa knattspyrnuna við allt sem flokkast getur undir kynþáttaníð fyrir fullt og allt.
Umtal í kringum Liverpool

Meðal þeirra sem klæddust téðum stuttermabolum var Glen Johnson, þeldökkur varnarmaður liðsins, og hlaut hann bágt fyrir hjá mörgum vegna þessa. Sjálfur sagðist Johnson hafa sínar ástæður fyrir því að styðja Suárez, en þetta uppátæki leikmannanna mæltist víða illa fyrir og ekki síst hjá bresku pressunni.
Ekki skánaði svo umtalið í kringum Liverpool eftir bikarleik gegn Oldham í byrjun janúar. Þá brast Tom Adeyemi, hinn tvítugi miðjumaður Oldham, í grát eftir að svo virtist sem einn áhorfandi eða fleiri í Liverpool-stúkunni hefðu verið með kynþáttafordóma gagnvart leikmanninum. Einn var handtekinn vegna málsins, en það mun enn vera í rannsókn.
Allt á suðupunkti

Forsvarsmenn Liverpool og Manchester United hafa fundað sín á milli og biðlað til aðdáenda sinna að sýna stillingu. Knattspyrnunnar vegna hljóta vonir allra að standa til þess að þeim verði að ósk sinni.