Enski boltinn

Fæstir að hugsa um fótboltann

Kjartan Guðmundsson skrifar
Kristján Atli Ragnarsson.
Kristján Atli Ragnarsson.
Aldrei þessu vant eru fæstir að hugsa um sjálfan fótboltann í þessum leik. Ég hef orðið mjög var við það hjá stuðningsfólki beggja liða," segir Kristján Atli Ragnarsson, ritstjóri á Kop.is, íslenskri stuðningsvefsíðu Liverpool.

Kristján Atli segir úrslit leiksins skipta minna máli en að leikurinn fari vel fram, innan vallar og utan, og að engir eftirmálar verði af honum. „Það hefur verið svo mikill hiti út af þessu máli með Suárez og Evra í fjölmiðlum og milli aðdáenda, rifrildi á netinu og ég veit ekki hvað og hvað, að margir hafa af því stórar áhyggjur að það verði mikil læti fyrir utan Anfield.

Ef eitthvert hneykslismál kæmi upp, til að mynda varðandi meðferðina á Patrice Evra ef hann spilar, yrði það miklu skaðlegra fyrir Liverpool en nokkurn tíma að tapa fyrir Manchester United í þessum bikarleik. Liverpool hefur átt undir högg að sækja og mátt sæta mikilli gagnrýni út af þessu máli og margir stuðningsmenn eru logandi hræddir um að eitthvað fari illa."

Kristján segist helst hafa kosið að stjórar liðanna, Kenny Dalglish og Alex Ferguson, hefðu komist að samkomulagi um að nota ekki Suárez og Evra í leikjum erkifjendanna svo stuttu eftir atburðinn. „Það er spurning hvernig Ferguson metur þetta, en mér finnst líklegt að Evra spili því hann er fyrirliði og einn af traustustu leikmönnum liðsins. Auðvitað eru stjórarnir að hugsa um að vinna fótboltaleiki og ekkert annað og vilja því hafa þessa menn til taks.

Aðspurður spáir Kristján sínum mönnum 1-0 sigri í leik þar sem allt verður í járnum. „Ef einhver skorar sigurmarkið gegn Manchester United er það Steven Gerrard. Annað kemur ekki til greina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×