Innlent

Ný skilti sýna vindstyrk undir Ingólfsfjalli

Upplýsingaskilti Vegagerðarinnar við Ingólfsfjall á þjóðvegi eitt við Selfoss eiga að sýna styrk vinds og vindhviða. Fréttablaðið/ÓKÁ
Upplýsingaskilti Vegagerðarinnar við Ingólfsfjall á þjóðvegi eitt við Selfoss eiga að sýna styrk vinds og vindhviða. Fréttablaðið/ÓKÁ
Á næstu dögum verða tekin í notkun tvö upplýsingaskilti sem sýna vindstyrk undir Ingólfsfjalli við Selfoss. „Það er búið að leggja að þessu rafmagn og á bara eftir að setja upp svokallað samskiptabox í skiltin,“ segir Svanur G. Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Selfossi.

Að sögn Svans voru skiltin sem sett hafa verið upp áður í notkun austur á fjörðum.

„En þetta er búið að vera á óskalistanum hjá okkur í dálítinn tíma. Nokkuð er síðan þarna var sett upp veðurstöð og það hefur verið kallað eftir þessum upplýsingum,“ segir hann.

Í vondum veðrum geta orðið allmiklar vindhviður og nokkuð um að sendiferðabílar og kerrur hafi fokið út af.

„En þetta kostar dálítið og aðrir staðir verið á undan í forgangsröðinni,“ bætir Svanur við.

Nýju skiltin, annað við Kögunarhól og hitt við gatnamótin upp á Biskupstungnabraut, eiga að sýna meðalvindstyrk, auk vindstyrks sem mælst hefur í mestu hviðum.

- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×