Enski boltinn

Drogba vill klára tímabilið með Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Didier Drogba virðist ætla að hafna lokkandi tilboði um að spila með kínversku liði en hann segist vilja klára tímabilið með Chelsea í ensku úrvalsdeildinni.

Shanghai Shenhua segist vilja gera Drogba að tekjuhæsta knattspyrnumanni heims en fulltrúar þess sögðust þess fullvissir í gær að þeim myndi takast að semja við hann áður en lokað verður fyrir félagaskipti í lok mánaðarins.

Drogba er nú að keppa með landsliði sínu, Fílabeinsströndinni, í Afríkukeppninni í knattspyrnu en honum mun hafa verið boðinn þriggja ára samningur sem myndi tryggja honum rúmar 50 milljónir í vikulaun. Sannarlega lygileg upphæð.

Núverandi samningur Drogba við Chelsea rennur út í sumar og hann virðist ætla að taka sér tíma í að ákveða næsta skref.

„Ég vil finna aftur gleðina og ástríðuna sem fylgir því að spila knattspyrnu. Það er það sem gerir knattspyrnuna svo skemmtilega. Ég hef saknað þess svolítið síðustu mánuðina," sagði Drogba við franska fjölmiðla.

„Þýðir það að ég fari frá Chelsea? Ekki fyrr en í júní."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×