Innlent

Átta ára fangelsi fyrir gróf kynferðisbrot gagnvart barni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Rúmlega fertugur karlmaður var dæmdur í átta ára fangelsi í dag fyrir að misnota stjúpdóttur sína kynferðislega ítrekað og gróflega yfir margra ára tímabil. Hann hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 23. mars síðastliðnum vegna málsins.

Samkvæmt ákæru munu brotin hafa átt sér stað yfir margra ára bil eða frá því að stúlkan var 10 ára gömul. Hann var einnig fundinn sekur um hafa haft í sinni vörslu barnaklám. Maðurinn var einnig ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart eigin dóttur, en var sýknaður af þeim ákærulið.

Manninum var einnig gefið að sök að hafa ítrekað hótað stjúpdóttur sinni lífláti ef hún segði frá kynferðisbrotum hans gagnvart henni. Þessu neitaði maðurinn staðfastlega. Fjölskipaður héraðsdómur segir að ganga megi út frá því að maðurinn hafi jafnan gert stelpunni það ljóst með einum eða öðrum hætti að hún mætti ekki skýra frá þessum misgjörðum hans. Gegn neitun hans þyki þó varhugavert að slá því föstu að hann hafi í því skyni hótað henni með fyrrgreindum hætti. Maðurinn var því sýknaður af þessum ákærulið.

Auk átta ára fangelsisrefsingar var maðurinn einnig dæmdur til að greiða stjúpdóttur sinni 2,5 milljónir í bætur.

Þetta er einn þyngsti dómur sem fallið hefur í kynferðisbrotamáli hér á landi.


Tengdar fréttir

Í varðhaldi grunaður um grófa misnotkun

Rúmlega fertugur karlmaður af Suðurnesjum hefur setið í gæsluvarðhaldi í um sex vikur grunaður um að hafa beitt stjúpdóttur sína grófu kynferðisofbeldi með reglulegu millibili um margra ára skeið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×