Innlent

Þörungarækt undirbúin í Mývatnssveit

Kristján Már Unnarsson skrifar
Félag um uppbyggingu þörungabús í Mývatnssveit hefur starfsemi í næsta mánuði. Hugmyndin er að nýta jarðhita til þörungaræktunar í tjörnum og kerjum.

Stofnfundurinn átti að vera í Reykjahlíð í síðustu viku en frestaðist vegna óveðursins. Engu að síður er áformað að fyrsti starfsmaðurinn hefji störf í næsta mánuði.

Skútustaðahreppur hefur undirbúið félagið í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskólann á Akureyri, Matís og Landsvirkjun. Byggt er á því að nýta helstu auðlind sveitarinnar, jarðhitann, en talsvert fellur til af afgangsvarma. Verkefnið er sprottið upp frá hugmyndum Hjörleifs Einarssonar, prófessors við Háskólann á Akureyri, um að nýta líftækni til að framleiða vörur úr þörungum og öðrum lífverum.

Arkitektastofan Kollgáta á Akureyri hefur kynnt hugmyndir um hvernig þörungabú gæti litið út og orðið sjálfstætt aðdráttarafl fyrir ferðamenn en hvorki hafa þó verið teknar ákvarðanir um staðsetningu né hvaða vörur verði framleiddar.

Dagbjört Bjarnadóttir, oddviti Skútustaðahrepps, segir óteljandi möguleika á þörungavörum. Dæmi um vörur sem gætu orðið til eru olíur, lyf, rotvarnarefni, fæðubótarefni og ilm- og bragðefni.

Nánar var fjallað um málið í fréttum Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×