Innlent

"Á köflum var erfitt að horfa á hana"

Úr kvikmyndinni Djúpið.
Úr kvikmyndinni Djúpið.
Ég held að Eyjamenn séu langfestir spenntir fyrir því að sjá myndina. Þetta segir Júlíus Ingason, ritstjóri Eyjafrétta. Hann var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag og ræddi þar við þáttastjórnendur um nýjustu kvikmynd Baltasars Kormáks, Djúpið.

Júlíus sótti forsýningu kvikmyndarinnar í gær. Hann sagði andrúmsloftið hafa verið magnþrungið. „Þetta er afar raunsæ kvikmynd," segir Júlíus. „Á köflum var í raun erfitt að horfa á hana. Allir þeir sem alast upp í sjávarplássum og víðar óttast sjóslys sem þessi. Flestir tengjast slíkum slysum eða þekkja einhvern sem lent hefur í slíku slysi."

Þá segir Júlíus að viðbrögð sýningargesta hafi verið ótrúleg. „Ég hef sjaldan upplifað jafn sterk viðbrögð, sem voru í raun engin viðbrögð; það var algjör dauðaþögn þegar slysið á sér stað í myndinni."

Djúpið byggir lauslega á afreki Guðlaugs Friðþórssonar sem synti til Vestmannaeyja eftir að Hellisey VE sökk árið 1984. Guðlaugur einn komst lífs af.

Júlíus segir að Baltasar og aðstandendur kvikmyndarinnar hafi komið sögunni til skila á snyrtilegan máta og án allrar yfirdrifni.

„Ég hef heyrt frá mörgum sjómönnum, sem annaðhvort hafa séð myndina eða stiklu úr henni, að þeir hreinlega kannist við sig þarna um borð í Hellisey."

Hægt er að hlusta á viðtalið við Júlíus í heild sinni hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×