Enski boltinn

Elokobi lánaður til Forest | Sorgartíðindi fyrir Messuna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
George Elokobi hefur verið lánaður til Nottingham Forest í ensku B-deildina en hann hefur verið á mála hjá Wolves undanfarin ár. Guðmundur Benediktsson segir þetta sorgartíðindi.

Elokobi hefur ekki náð að festa sig í sessi í liði Wolves og segir Mick McCarthy, stjóri liðsins, gott fyrir hann að fá að spila meira.

„Við erum búnir að endurheimta alla okkar varnarmenn úr meiðslum og þetta ætti að gefa George tækifæri til að spila meira," sagði McCarthy við enska fjölmiðla.

Lánssamningurinn gildir til loka tímabilsins en Wolves getur þó kallað Elokobi til baka með sólarhringsfyrirvara að loknum fyrstu fjórum vikum lánstímans.

Elokobi hefur verið í sérstöku uppáhaldi hjá stjórnendum Sunnudagsmessunnar á Stöð 2 Sport og honum hafa verið gerð góð skil í þættinum. Sunnudagsmessan fjallar fyrst og fremst um leiki ensku úrvalsdeildina og því mikill missir fyrir þáttinn að Elokobi skuli nú vera kominn í ensku B-deildina.

„Þetta eru sorgartíðindi, ég get ekki sagt annað," sagði Guðmundur þegar Vísir náði tali af honum. „Elokobi hefur reynst mér og mínum þætti einkar vel enda afar áhugaverður leikmaður eins og fram hefur komið í þættinum."

„Þetta er áfall fyrir þáttinn en líka fyrir ensku úrvalsdeildina. En Championship-deildin er að detta í lukkupottinn. Það eru mín fyrstu viðbrögð við þessum stórfréttum sem komu flatt upp á mig."

Guðmundur er nú staddur í Englandi og segir að þetta sé helsta umfjöllunarefni fjölmiðla þar í landi. „Þetta er fyrst frétt í öllum miðlum. Capello þarf að víkja og það ágæta mál fellur í skuggann. Enska knattspyrnusambandið virðist ánægt með það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×