Enski boltinn

Lambert bestur í Championship | Poyet besti stjórinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rickie Lambert, framherji Southampton, var valinn besti leikmaður neðri deilda ensku knattspyrnunnar um helgina. Þá hlaut Gustavo Poyet, stjóri Brighton Hove & Albion, viðurkenningu fyrir góðan árangur í starfi.

Það kom líklega fáum á óvart að verðlaunin, sem hafa verið veitt árlega frá 2006, féllu Lambert í skaut. Hann hefur farið á kostum í framlínu Southampton sem situr á toppi Championship-deildarinnar þrátt fyrir að vera nýliði.

„Ég hef mikla reynslu og bæti alltaf í reynslubankann. Ég hef aldrei spilað betur en nú," sagði Lambert sem hefur skorað 25 mörk í 39 leikjum á tímabilinu og er markahæstur í deildinni.

Lambert gekk til liðs við Southampton frá Bristol Rovers fyrir eina milljón punda haustið 2009. Hann hefur síðan skorað 82 mörk í 149 leikjum fyrir Dýrlingana.

Jordan Rhodes, liðsfélagi Jóhannesar Karls Guðjónssonar hjá Huddersfield var valinn sá besti í C-deildinni. Matt Richie, lærisveinn Paulo Di Canio hjá Swindon, hlaut nafnbótina í D-deildinni.

Þá hafði Gustavo Poyet, stjóri Brighton, betur í baráttu við Dougie Freedman, stjóra Crystal Palace, og Lee Clark, fyrrum stjóra Huddersfield.

Mark ársins skoraði Peter Whittingham, samherji Arons Einars Gunnarssonar hjá Cardiff, í leik liðsins gegn Barnsley. Það má sjá í spilaranum hér að ofan.

Fyrri leikmenn ársins í Championship-deildinni:

2011: Adel Taarabt (QPR)

2010: Kevin Nolan (Newcastle)

2009: Sylvan Ebanks-Blake (Wolves)

2008: Kevin Phillips (West Brom)

2007: Jason Koumas (West Brom)

2006: Phil Jagielka (Sheffield United)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×