Enski boltinn

Demba Ba skoraði tvö í sigri Newcastle á Wigan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leikmenn Newcastle fagna fyrra marki Demba Ba.
Leikmenn Newcastle fagna fyrra marki Demba Ba. Nordicphotos/Getty
Newcastle vann 3-0 sigur á Wigan í lokaleik 15. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu en leikið var í Newcastle.

Heimamenn fengu óskabyrjun þegar þeir fengu vítaspyrnu strax á tólftu mínútu. Maynor Fiugeroa var gefið að sök að hafa stjakað við Papiss Cisse, sóknarmanni Newcastle, innan teigs. Var Hondúrasmanninum vikið af velli fyrir brotið.

Demba Ba skoraði af öryggi úr spyrnunni en svekkelsi heimamanna var mikið. Fékk Chilemaðurinn Jean Beausejour meðal annars gult spjald fyrir hávær mótmæli.

Átta mínútum síðar var Demba Ba aftur á ferðinni og tvöfaldaði forskot heimamanna þegar hann fylgdi langskoti vel á eftir.

Varamaðurinn Gael Bigirimana opnaði markareikning sinn fyrir Newcastle á 71. mínútu. Markið var stórglæsilegt en Búrúndinn 19 ára setti knöttinn upp í vinkilinn með vinstri fæti fyrir utan teig.

Sigurinn var kærkominn fyrir Newcastle sem hafði tapað tveimur heimaleikjum í röð. Liðið er sem fyrr í 14. sæti en hefur nú þriggja stiga forskot á Wigan sem er í 15. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×