Enski boltinn

Dalglish húðskammaði leikmenn í fjölmiðlum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, sakaði leikmenn sína um að bera ekki virðingu fyrir andstæðingi sínum í dag en liðið tapaði 3-1 fyrir Bolton í ensku úrvalsdeildinni.

Dalglish segir að leikmenn hafi verið hugann við bikarleikina gegn Manchester City (í deildarbikarnum) og Manchester United (í bikarnum) sem eru framundan hjá Liverpool.

Sendi hann skýr skilaboð til leikmanna sinna og sagði að ef svona lagað myndi eiga sér aftur stað yrðu þeir sendir í burtu frá félaginu.

„Það er enginn hjá þessu knattspyrnufélagi sem ber ekki virðingu fyrir öðru fólki,“ sagði Dalglish. „Ef vandamálið var að einhverjir þeirra töldu að þessi leikur væri ekki jafn mikilvægur og sá næsti er það allt saman gott og blessað - en þeir verða þá ekki áfram hjá félaginu.“

„Úrslitin eru mér mikil vonbrigði en mestu vonbrigðin eru þó þau að ég taldi ekki leikmennina tilbúna fyrir þennan leik. Nálgun þeirra til leiksins var röng og hvernig undirbúningnum var háttað.“

„Grunnstoðir þessa félags hafa ávallt verið að bera virðingu fyrir öðru fólki. Félagið er reist á þeim grunni að næsti leikur er ávallt sá mikilvægasti - ekki næsti leikur á eftir eða þarnæsti.“

„Ég vona að þeir lærðu sína lexíu í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×