Fótbolti

Kolbeinn: Erfitt að taka þessu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kolbeinn Sigþórsson, leikmaður Ajax og íslenska landsliðsins, segir að það verði skelfilegt fyrir sig að vera á hliðarlínunni næstu mánuðina. Í dag var greint frá því að hann verði frá næstu fjóra mánuðina vegna axlarmeiðsla.

Kolbeinn fer í aðgerð á morgun og mun því missa af leikjum Ajax í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, sem og næstu tveimur leikjum Íslands í undankeppni HM 2014.

Ajax er í riðli með Manchester City, Real Madrid og Dortmund og því ljóst að Kolbeinn missir af tækifæri til að spila gegn mörgum sterkustu félagsliðum Evrópu.

„Það er ansi erfitt að taka þessu og svekkelsið er mikið. Þetta eru fréttir sem ég vildi alls ekki fá," sagði Kolbeinn.

Kolbeinn hefur gengið á milli sérfræðinga að undanförnu og þótti aðgerð vera skásti kosturinn í stöðunni.

„Ég hef verið að glíma við vandamál í öxlinni í nokkur ár. Ég fór í aðgerð á öxlinni fyrir nokkrum árum en kom ekki nógu vel út úr henni. Læknarnir segja þó nú að með þessari aðgerð geti ég náð fullum bata á öxlinni sem er það jákvæðasta við þetta allt saman."

Nánar verður rætt við Kolbein í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×