Innlent

Vill að afborganir fasteignalána verði frádráttarbærar frá tekjuskatti

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, talaði á opnum fundi á Grand Hótel í hádeginu þar sem rætt var um skuldavanda heimilanna og leiðir til að draga úr vægi verðtryggingar lána.

Þar vakti hann athygli á nýrri tillögu Framsóknarflokksins til hjálpar heimilunum en hún gengur út á að skattkerfið verði nýtt til að grynnka á skuldum heimilanna. Í tillögunni felst að afborganir fasteignalána verði frádráttarbærar frá tekjuskatti. Skattaafslátturinn verður lagður beint inn á höfuðstól viðkomandi fasteignaláns og fasteignalánin verði færð niður í 100% af fasteignamati. Tillagan verður nánar kynnt þegar hún verður lögð fram á Alþingi.

Verðtrygging var ofarlega í huga fundargesta og kom þar skýrt fram þörfin fyrir breytingum á núverandi kerfi. Sigmundur Davíð ræddi tillögur Framsóknar um 4% þak á verðtrygginguna sem myndi minnka áhrif hennar á fólkið í landinu. Sú tillaga bíður enn afgreiðslu í þinginu. Einnig ræddi hann tilkomu nefndar um afnám verðtryggingar sem varð til að frumkvæði framsóknarmanna.

Sigmundur Davíð lagði mikla áherslu á að þrátt fyrir mismunandi stefnur stjórnmálaflokkanna þá mætti ekki gleymast að markmiðið er öllum sameiginlegt, að gera Ísland að betra þjóðfélagi. Hann telur að mestu skipti að beita skynsemi og rökhyggju til að ná sem mestum árangri fyrir þjóðina í heild að því er fram kemur í tilkynningu frá flokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×