Fótbolti

Donovan með þrennu í stórsigri Bandaríkjanna á Skotum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Landon Donovan skoraði þrennu fyrir Bandaríkjamenn sem unnu 5-1 stórsigur á Skotlandi í Dallas í nótt.

Donovan kom heimamönnum yfir strax á 3. mínútu og Michael Bradley, leikmaður Chievo, kom Bandaríkjunum í 2-0 á 8. mínútu með stórkostlegu marki. Bradley tók þá svokallað kontraskot, þar sem boltinn rétt skoppar áður en spyrnt er. Skotið af 25 metra færi upp í bláhornið.

Mark Bradley má sjá í spilaranum hér fyrir ofan eða með því að smella hér.

Bandaríkjamenn sáu sjálfir um að rétta hlut Skota þegar Geoff Cameron skoraði sjálfsmark eftir stundarfjórðungsleik. Staðan í hálfleik 2-1.

Í síðari hálfleiknum skoraði Donovan tvö mörk á fimm mínútum. Það var svo Jermaine Jones, leikmaður Schalke, sem tryggði öruggan sigur Bandaríkjamanna stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Bandaríkin hafa nú unnið fimm leiki í röð undir stjórn Þjóðverjans Jürgen Klinsmann eftir vægast sagt brösuga byrjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×