Enski boltinn

Adebayor sá um Swansea | Gylfi skorar enn einu sinni á útivelli

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tottenham vann nokkuð þægilegan sigur, 3-1, á Swansea í ensku úrvalsdeildinni í dag en Gylfi Sigurðsson skoraði eina mark Swansea í leiknum. Rafael van der Vaart skoraði fyrsta mark Tottenham í leiknum en Emmanuel Adebayor bætti síðan tveimur við í síðari hálfleiknum og gulltryggði stigin þrjú fyrir heimamenn.

Tottenham voru sterkari til að byrja með í á White Hart Lane og höfðu fín tök á leiknum. Gareth Bale var með reglulegar áætlunarferðir upp kantinn og varnarmenn Swansea réðu lítið við hann.

Rafael van der Vaart kom Tottenham yfir eftir tæplega tuttugu mínútna leik með fínu skoti alveg óverjandi fyrir markvörð Swansea.

Staðan var 1-0 í hálfleik. Leikmenn Swansea mættu grimmir til leiks í síðari hálfleik og það tók okkar mann Gylfa Sigurðsson ekki langan tíma að setja mark sitt á leikinn. Þegar nokkrar mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum náði Gylfi frábæru skoti á markið en Brad Friedel varði meistaralega í marki Tottenham. Þegar hálftími var eftir af leiknum var aftur á móti komin tími á mark frá Gylfa en hann þrumaði boltanum í netið alveg óverjandi fyrir Friedel.

Það tók heimamenn ekki langan tíma að komast aftur yfir en Emmanuel Adebayor skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu tíu mínútum síðar. Emmanuel Adebayor var síðan aftur á ferðinni fjórum mínútum fyrir leiklok og gerði útum leikinn en aftur skoraði hann með skalla. Niðurstaðan því 3-1 sigur Tottenham á Swansea.

Gylfi Sigurðsson hefur núna skoraði fimm mörk í síðustu fjórum útileikjum Swansea, frábært hjá stráknum.Tottenham er í fjórða sætinu með 58 stig en Swansea er í því ellefta með 39 stig.

 

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×