Innlent

"Við erum heimsmeistarar"

Kormákur og Skjöldur áttu frumkvæðið að þróun Bríó sem er bruggaður af Borg Brugghúsi.
Kormákur og Skjöldur áttu frumkvæðið að þróun Bríó sem er bruggaður af Borg Brugghúsi. mynd/365
„Við erum heimsmeistarar og komum til með að halda hátíð líkt og er alltaf gert þegar heimsmeistarar koma heim. Þessu verður fagnað, ég lofa því," segir Kormákur Geirharðsson, annar eiganda Ölstofu Kormáks og Skjaldar. Bríó bjórinn, sem var þróaður sérstaklega af Borg Brugghúsi í samstarfi við þá félaga, bar sigur úr býtum í sínum flokki í World Beer Cup 2012, sem fram fór í Kaliforníu á dögunum.

Um 800 bruggverksmiðjur frá 54 löndum tóku þátt í keppninni með samtals tæplega 4000 bjóra. Flokkurinn sem Bríó bjórinn tók þátt í var einn stærsti flokkur keppninnar, með 75 bjóra skráða til leiks. Flokkur hét hét Þýskir pilsnerbjórar. „Þjóðverjarnir eru brjálaðir, þetta á að vera þeirra heimavöllur. Þetta sýnir að okkar bragðlaukar eru miklu betri," segir Kormákur spakur.

„Þetta er bjór sem við þróuðum í samvinnu við Brugghúsið Borg, sem Ölgerðin á. Okkur vantaði bjór fyrir okkur svo þetta varð samvinnu verkefni okkar," segir Kormákur. „Við erum ótrúlega „bríó" yfir þessu."

Bríó bjórinn er sá fyrsti sem Borg Brugghús sendi frá sér fyrir tveimur árum. Hann var aðeins fáanlegur á Ölstofunni en er nú seldur í nokkrum Vínbúðum. Bjórinn er nefndur eftir góðum vini þeirra Kormáks og Skjaldar, fjöllistamanninum Steingrími Eyfjörð Guðmundssyni, sem lést fyrir aldur fram árið 2009.

„Hann var afskaplega skemmtilegur maður, mikill sagnameistari og tryggur viðskiptavinur Ölstofunnar," segir Kormákur. „Hann var kallaður Bríó - en bríó er gamalt ítalskt orð yfir gleði. Bríó er eiginlega sérstakur lífsstíll, en orðið lýsir þeim sem kunna að njóta lífsins og lystisemda þess en stilla öllum áhyggjum í hóf," segir Kormákur.

Sturlaugur Jón Björnsson, bruggmeistari Borgar Brugghúss, segir að Bríó sé svokallaður pilsner-bjór en ólíkt því sem margir Íslendingar halda er pilsner ekki léttöl heldur ljós lagerbjór, ættaður frá borginni Pilsen í Bæheimi í vestanverðu Tékklandi. „Notað er þýskt humlayrki, Mittelfruh frá Hallertau í Bavaríu, í bjórinn. Þessi humlar eru margrómaðir og ævafornir og einkum þekktir fyrir að gefa bjór einkennandi bragð og ljúfa lykt. Flestir nútímaneytendur þekkja lítið til bragðs eða lyktar af humlum, þar eð þeir eru nú til dags einkum notaðir í bjór til að gera hann beiskan. Auk humla er notað ljóst pilsen-malt frá Svíþjóð, vatn úr Gvendarbrunnum og undirgerjandi ger."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×