Enski boltinn

Gylfi náði ekki meti Eiðs Smára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson Mynd/Nordic Photos/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea City urðu að sætta sig við tap á heimavelli um helgina og frábær mánuður íslenska landsliðsmannsins endaði því á súru nótunum. Gylfa vantaði eitt mark til að jafna markamet Íslendings í einum mánuði. Eiður Smári Guðjohnsen á því enn metið einn en hann náði því þrisvar sinnum að skora fimm mörk í einum mánuði í ensku úrvalsdeildinni, fyrst í desember 2000, svo í desember ári seinna og síðan í þriðja og síðasta skiptið í janúar 2002.

Eiður Smári varð fyrsti Íslendingurinn til að skora fimm mörk í sama mánuði í ensku úrvalsdeildinni þegar hann skoraði 5 mörk í 5 leikjum sínum með Chelsea í desember 2000. Eiður Smári skoraði tvö mörk í leikjum á móti Derby (4-1 sigur) og Ipswich (2-2 jafntefli) og að auki eitt mark í 3-0 sigri á Bradford.

Eiður skoraði í fjórum leikjum af sjö í desember 2001. Hann hóf mánuðinn á því að skora í 3-0 sigri á Manchester United á Old Trafford og endaði hann á því að skora bæði mörkin í 2-1 útisigri á Newcastle. Eiður Smári skoraði einnig í heimasigrum á Liverpool (4-0) og Bolton (5-1) í jólamánuðinum 2001.

Eiður Smári var áfram í miklu stuði í janúar 2002 og skoraði þá í öllum fjórum deildarleikjum sínum með Chelsea, samtals fimm mörk. Hann skoraði eitt mark á móti Southampton (2-4 tap), Bolton (2-2) og Leeds (2-0 sigur) og skoraði síðan tvö mörk í 5-1 sigri á West Ham á Stamford Bridge.

Gylfi skoraði tvö mörk í báðum útleikjum Swansea í mars, 2-0 sigri á Wigan og 3-0 sigri á Fulham. Hann náði ekki að skora í heimaleikjunum á móti Manchester City og Everton og á enn eftir að opna markareikning sinn á Liberty Stadium í Swansea.

Nú er að sjá hvort að Gylfi geti bætt við einhverjum mörkum í aprílmánuði en Swansea spilar þá alls sex leiki.

Flest mörk Íslendings í einum mánuði í ensku úrvalsdeildinni:
Eiður Smári Guðjohnsen Með Chelsea í desember 2000. nordicphotos/getty
5 - Eiður Smári Guðjohnsen, Chelsea desember 2000

5 - Eiður Smári Guðjohnsen, Chelsea desember 2001

5 - Eiður Smári Guðjohnsen, Chelsea janúar 2002

4 - Eiður Smári Guðjohnsen, Chelsea október 2004

4 - Heiðar Helguson, Fulham, febrúar 2006

4 - Gylfi Þór Sigurðsson, Swansea mars 2012

3 - Eiður Smári Guðjohnsen, Chelsea mars 2001

3 - Eiður Smári Guðjohnsen, Chelsea janúar 2003

3 - Eiður Smári Guðjohnsen, Chelsea apríl 2005

3 - Heiðar Helguson, Queens Park Rangers nóvember 2011




Fleiri fréttir

Sjá meira


×