Enski boltinn

Klinsmann neitar því að vera á leið til Tottenham

Jürgen Klinsmann kann vel við sig í starfinu sem landsliðsþjálfari í Bandaríkjunum.
Jürgen Klinsmann kann vel við sig í starfinu sem landsliðsþjálfari í Bandaríkjunum. Getty Images / Nordic Photos
Jürgen Klinsmann, fyrrum framherji þýska landsliðsins í fótbolta og enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham, segir að hann hafi ekki hug á því að taka við knattspyrnustjórastöðunni hjá Tottenham.

Klinsmann, sem hefur einnig þjálfað þýska landsliðið, er í dag þjálfari bandaríska karlalandsliðsins í fótbolta. Harry Redknapp, núverandi knattspyrnustjóri Tottenham, er talinn vera efstur á óskalista enska knattspyrnusambandsins sem leitar að eftirmanni Fabio Capello sem hætti á dögunum störfum eftir ósætti við stjórn sambandsins.

Englendingar leika í úrslitakeppni Evrópumeistaramótsins sem fram fer í Úkraínu og Póllandi í sumar. Og það vantar þjálfara til þess að stýra liðinu í þeirri keppni. Stuart Pearce var með ábyrgðina þegar England lék vináttuleik gegn Hollendingum á dögunum en Pearce er þjálfari U21-árs landsliðs Englands og Ólympíuliðs Breta.

Hinn 47 ára gamli Klinsmann sagði í viðtali við The Sun á Bretlandseyjum að hann hafi ekki hug á því að hætta störfum hjá bandaríska landsliðinu til þess að taka við liði Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×